HK lét FH-inga líta illa út

Davíð Þór Viðarsson og félagar í FH komust ekkert áfram …
Davíð Þór Viðarsson og félagar í FH komust ekkert áfram gegn HK í gær. mbl.is/Hari

HK vann sinn þriðja deildarleik í röð þegar liðið fékk FH í heimsókn í 13. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu í Kópavogi í gærkvöldi en leiknum lauk með þægilegum sigri HK, 2:0.

Bæði mörkin komu í fyrri hálfleik en það fyrra skoraði Emil Atlason af stuttu færi úr markteignum með skalla eftir frábæran undirbúning Harðar Árnasonar og Mána Austmanns Hilmarssonar. Atli Arnarson skoraði annað markið úr vítaspyrnu sem Valgeir Valgeirsson fiskaði undir lok fyrri hálfleiks. Valgeir niðurlægði nokkra leikmenn FH í aðdraganda marksins er hann labbaði framhjá hverjum Hafnfirðingnum á fætur öðrum áður en Guðmann Þórisson tók hann niður í teignum og vítaspyrna réttilega dæmd.

Strax frá fyrstu mínútu í gær var ljóst að HK-ingar myndu ekki tapa. Liðið var afar skipulagt og varnarleikur liðsins var upp á 10,5. HK-ingar vörðust í 4-4-2 leikkerfinu djúpt inni á eigin vallarhelmingi og Hafnfirðingar áttu engin svör. Sóknarleikur liðsins var svo vel útfærður en þrátt fyrir að HK hafi varist vel á eigin vallarhelmingi gat liðið einnig haldið vel í boltann þegar á reyndi og fyrsta markið kom einmitt eftir gott spil frá aftasta varnarmanni.

Frammistaða Hafnfirðinga var hreinasta hörmung í leiknum. Davíð Þór Viðarsson var á hælunum og gat varla tekið á móti bolta allan leikinn. Björn Daníel Sverrisson komst ekki úr fyrsta gírnum og í hvert skipti sem hann fékk boltann í álitlegum sóknum FH-inga hægði hann á spilinu og sendi boltann til baka. Halldór Orri Björnsson hitti varla samherja allan leikinn og úrræðaleysi liðsins var algjört. Það var hreinlega eins og leikmenn liðsins nenntu ekki að spila leikinn, svo slakir voru þeir.

Nánar er fjallað um leiki gærkvöldsins á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert