„Kannski mér að kenna að hafa ekki spilað henni þarna meira“

Kristján Guðmundsson
Kristján Guðmundsson Eggert Jóhannesson

„Við lögðum áherslu á að fara fyrr fram völlinn og fækka aðeins sendingunum. Fara bara í einfaldari hluti og það er lykilatriði, að breyta uppspilsáherslum. Það gekk vel og við munum reyna að fínpússa þetta áfram fyrir næstu leiki,“ sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar eftir 2:5 sigur liðsins á HK/Víkingi í Pepsi Max deild kvenna í kvöld. 

Fyrir leikinn hafði Stjarnan ekki skoraði deildarmark frá því í maí en það varð heldur betur breyting þar á. Sérstaklega léku þær vel saman þær Birna Jóhannsdóttir og Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir.

Birna er gríðarlega útsjónarsöm og góður leikmaður og okkur gengur yfirleitt vel þegar hún spilar í þessari stöðu. Það er kannski mér að kenna að hafa ekki spilað henni þarna meira. Hún spilaði mjög vel og er með auga fyrir þessu að senda framherjann í gegn og við erum mjög ánægðir með hana,“ sagði Kristján.

En hver var munurinn á þessum leik og síðustu leikjum liðsins?

„Mér fannst mjög margir í liðinu lyfta leik sínum frá síðustu leikjum. Einbeitingin var mjög góð og við byrjuðum í upphituninni af krafti og það sást að við vildum vinna í dag alveg frá upphafi.“

„Markmiðin okkar eru að vera í efri hlutanum en þetta er gríðarlega jafnt þannig að þetta er gríðarlega spennandi og hvert einasta mark mun telja. Vonandi náum við áfram eins mörgum og í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert