Óvíst hvenær Cloé heldur til Portúgals

Cloé Lacasse verður með ÍBV í dag þegar liðið fær …
Cloé Lacasse verður með ÍBV í dag þegar liðið fær Keflavík í heimsókn í 11. umferð Pepsi Max-deildarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Cloé Lacasse, sóknarmaður ÍBV í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, verður með liðinu þegar ÍBV fær Keflavík í heimsókn í 11. umferð deildarinnar á Hásteinsvöll í Vestmannaeyjum í dag en þetta staðfesti hún í samtali við mbl.is.

Cloé skrifaði undir tveggja ára samning við portúgalska 1. deildarliðið Benfica í síðustu viku en tímabilið í Portúgal hefst í september og er óvíst hvenær Cloé heldur utan til æfinga með sínu nýja liði.

„Ég verð með ÍBV í dag á móti Keflavík og hugsanlega í næstu leikjum líka. Það er ekki komið á hreint hvenær ég fer út og eins og staðan er í dag er smá óvissa í kringum það. Ég á hins vegar ekki von á því að klára tímabilið með ÍBV en það er ómögulegt að segja hvað ég mun spila marga leiki fyrir félagið í viðbót,“ sagði Cloé í samtali við mbl.is í dag.

Cloé er spennt fyrir því að reyna fyrir sér á nýjum slóðum en hún hefur spilað með ÍBV frá árinu 2015. 

„Það er mjög spennandi uppbygging í gangi hjá Benfica og ég vildi fyrst og fremst taka þátt í þeirri uppbyggingu. Kvennaliðið er þannig séð nýtt af nálinni og það ætlar sér stóra hluti, bæði í Portúgal og Evrópu. Boltinn sem er spilaður í Portúgal minnir á brasilískan fótbolta og ég tel að deildin henti leikstíl mínum mjög vel og það er ein af ástæðum þess að ég ákvað að fara til Benfica,“ sagði Cloé í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert