Stöðugleiki liðsins ákveðið rannsóknarefni

Valskonur fagna öðru marki Hlínar Eiríksdóttur á meðan Þórunn Helga …
Valskonur fagna öðru marki Hlínar Eiríksdóttur á meðan Þórunn Helga Jónsdóttir horfir í hina áttina. mbl.is//Hari

„Valur vann þennan leik bara nokkuð sanngjarnt fannst mér,“ sagði Þórunn Helga Jónsdóttir, fyrirliði KR, í samtali við mbl.is eftir 3:0-tap liðsins gegn Val í 11. umferð úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Origo-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.

„Þær skora mark snemma leiks sem gerir þetta erfitt. Þær eru auðvitað taplausar í allt sumar en mér fannst við samt standa vel í þeim í fyrri hálfleik. Við fengum nokkur hálffæri og ef við hefðum náð að minnka muninn í 2:1 hefðum við hugsanlega getað snúið þessu. Þriðja markið þeirra klárar leikinn og sigurinn var sanngjarn þegar upp var staðið.“

KR fór illa af stað í deildinni í sumar og Bojana Besic hætti með liðið í byrjun júlí. Liðið hefur hins vegar verið að rétta úr kútnum í undanförnum leikjum og er nú komið úr fallsæti.

„Við erum búnar að fá fullt af stigum í það minnsta og náðum þremur sigurleikjum í röð. Ég veit ekki endilega hvort það hafi eitthvað með þjálfarabreytinguna að gera en það er alla vega mjög góð stemning í hópnum og það gefur okkur mikið að vera komnar í bikarúrslit. Mér finnst við vera með allt of fá stig miðað við hvað liðið er gott.“

Þórunn er bjartsýn upp á framhaldið að gera en KR er í áttunda sæti deildarinnar með 10 stig þegar sjö leikir eru eftir af tímabilinu.

„Það er ákveðið rannsóknarefni hvernig við getum stundum verið svona góðar og stundum svona slakar en við virðumst vera á réttri leið og það er góður stígandi í þessu hjá okkur,“ sagði Þórunn Helga í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert