Valur fór létt með KR

Elín Metta Jensen og Hallbera Guðný Gísladóttir fagna eftir að …
Elín Metta Jensen og Hallbera Guðný Gísladóttir fagna eftir að Elín kom Val yfir í leiknum í kvöld. mbl.is/Hari

Valskonur áttu í litlum vandræðum þegar KR kom í heimsókn á Origo-völlinn á Hlíðarenda í 11. umferð úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, í kvöld. Leiknum lauk með öruggum 3:0-sigri Vals þar sem að Elín Metta Jensen kom Val yfir áður en Hlín Eiríksdóttir bætti við tveimur mörkum til viðbótar fyrir Valskonur.

KR fékk fyrsta hálffæri leiksins þegar Tijana Krstic átti skalla framhjá marki strax á 3. mínútu. Eftir það tóku Valskonur öll völd á vellinum og Elín Metta Jensen fékk frábært færi til að koma Val yfir á 11. mínútu þegar Margrét Lára Viðarsdóttir lagði boltann á hana í teignum eftir hornspyrnu en skot hennar fór rétt framhjá markinu. Þremur mínútum síðar kom Elín Metta Val yfir þegar Hallbera Guðný Gísladóttir sendi hana í gegn og Elín kláraði vel framhjá Ingibjörgu í marki KR. Valskonur voru ekki lengi að bæta við og aðeins sjö mínútum síðar slapp Hlín Eiríksdóttir í gegn eftir langa sendingu frá Hallberu Guðnýju Gísladóttur. Hlín átti skot sem Ingibjörg varði en Hlín hirti frákastið og gerði vel í að skora í tómt markið úr þröngu færi og staðan orðin 2:0.

Vesturbæingar hressust aðeins við þetta og áttu nokkrar ágætis sóknartilraunir en gekk illa að hitta rammann. Fanndís Friðriksdóttir var svo nálægt því að bæta við þriðja marki Valskvenna á 40. mínútu þegar hún labbaði framhjá varnarmönnum KR en skot hennar var varið af varnarmönnum KR og staðan því 2:0 í hálfleik, Val í vil. Síðari hálfleikurinn fór rólega af stað. Valsliðið var meira með boltann á meðan KR-liðið varðist aftarlega og freistaði þess að beita skyndisóknum. Sóknarleikur Vesturbæinga var hins vegar afar hugmyndasnauður og þeim tókst aldrei að ógna marki Valskvenna af neinu viti.

Valskonur létu skotin dynja á marki KR en þau voru annaðhvort víðsfjarri eða beint á Ingibjörgu í marki KR. Það var ekki fyrr en á 79. mínútu sem Valsliðinu tókst að gera út af við leikinn þegar Dóra María Lárusdóttir átti flotta fyrirgjöf frá vinstri eftir hornspyrnu á Hlín sem skoraði með skalla af stuttu færi í fjærhornið og staðan orðin 3:0. Eftir þetta fjaraði leikurinn hægt og rólega út og bæði lið virtust sátt með fenginn hlut. Valskonur eru áfram í efsta sæti deildarinnar með fullt hús stiga eða 31 stig en liðið er með fjögur mörk í plús á Breiðablik sem er í öðru sætinu. KR er hins vegar komið í áttunda sætið með 10 stig, líkt og Keflavík og Fylkir.

Valur 3:0 KR opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið með öruggum sigri Vals.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert