Alexandra kýld í andlitið – „Það fauk í mig“

Óhætt er að segja að Alexandra Jóhannsdóttir hafi fengið að finna fyrir því þegar Breiðablik burstaði Dragon frá Norður-Makedóníu, 11:0, í undanriðli Meistaradeildarinnar í Sarajevó í dag. Leikmenn Dragon voru mjög grófir, en Alexandra fékk meðal annars hnefa í andlitið.

„Dómarinn var aðeins búinn að missa leikinn úr höndunum í lokin og þær voru ekki alveg á sama plani og við með að spila fótbolta. En við gerðum okkar og skoruðum ellefu mörk,“ sagði Alexandra við mbl.is eftir leik, áður en hún fékk yfir sig vatnsgusu frá Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur.

En nánar að hnefahögginu – hvað gerðist þar?

„Það kemur fyrirgjöf, ég ætla í boltann og skalla en markmaðurinn er aðeins of sein. Dómarinn var ekki alveg að fylgjast með,“ sagði Alexandra, sem hefur ekki lent í svona mótspyrnu áður á vellinum. Og það var einfalt svar þegar blaðamaður spurði hvort hefði verið erfitt að láta þær ekki fara í taugarnar á sér.

„Já, það fauk einu sinni í mig. En Steini var búinn að tala um það fyrir leik að við mættum ekki láta þær fara í taugarnar á okkur. Og við gerðum það nokkuð vel.“

Gaman að hafa foreldrana í stúkunni

Mikill hiti er í Sarajevó og meðal annars var fyrri hálfleikur stöðvaður svo leikmenn gætu fengið sér vatn.

„Það er virkilega erfitt, en mér fannst það betra núna en í síðasta leik. Við erum aðeins búnar að venjast hitanum og vera á æfingum úti, svo þetta er allt í lagi,“ sagði Alexandra.

Það voru komnir þónokkrir fjölskyldumeðlimir stelpnanna í stúkuna, meðal annars foreldrar Alexöndru. Auk þess áttu Karólína Lea og systurnar Ásta Eir og Kristín Dís fulltrúa í stúkunni.

„Það er rosa gaman að fá þau öll og skemmtilegur stuðningur,“ sagði Alexandra, en nánar er rætt við hana í meðfylgjandi myndskeiði hér efst í fréttinni.

Alexandra Jóhannsdóttir.
Alexandra Jóhannsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert