Fagnar ekki Evrópusætinu strax

Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH.
Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH. mbl.is/Valli

Það var létt hljóðið í Ólafi Kristjánssyni, þjálfara FH, eftir 3:2 sigur FH á Val á Hlíðarenda í kvöld í 16. umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu. FH komst með sigrinum í Evrópusæti, er í 3. sæti með 25 stig.

„Ég er ánægður með trúna sem var í liðinu allan tímann. Í fyrri hálfleik vantaði smá takt í spilið með boltann. Fengum þó upphlaup þar sem ég hefði viljað sjá okkur hitta markið. Við vorum að skjóta svolítið yfir og fram hjá. Leyfðum Völsurunum kannski að vera með boltann í öftustu línu. Svo töluðum við um það í hálfleik, ef við héldum þessu skipulagi og aga, þá myndum við alltaf fá færi. Það var ánægjulegt að það skyldi takast,“ sagði Ólafur við mbl.is eftir leik.

Hann fagnar þó ekki Evrópusæti á þessum tímapunkti, þrátt fyrir að vera í því.

„Að vera í Evrópusæti þegar deildin er búin, þá verð ég mjög ánægður. Eins og þessi deild er að spilast og hvernig sveiflurnar eru, getur maður ekkert sagt. Ég missi ekki fótanna við það að annaðhvort tapa leik eða vinna leik heldur held ég fókus á því að reyna að koma okkur í gott sæti þegar mótið klárast,“ sagði Ólafur.

Öll fimm mörk leiksins komu í síðari hálfleik. Þar af voru þrjú þeirra úr vítaspyrnum, og tvö á kostnað FH. 

Ólafi fannst báðar vítaspyrnar sem FH fékk á sig skrýtnar. Fyrst er Þórður Þorsteinn Þórðarson dæmdur brotlegur þegar hann var í návigi við Andra Adolfsson, og einnig Daði Freyr Arnarsson, markvörður FH, sem fór út úr markinu og kýldi boltann frá, en fór einnig í leiðinni í títtnefndan Andra.

„Báðir [dómarnir] fannst mér skrýtnir. Völsurunum finnst eflaust vítið sem við fengum stórskrýtið líka. Þeir voru duglegir að tjá sig við dómarana og ég læt það bara standa. En varðandi það þegar Daði kemur út, þá get ég ekki betur séð en hann boxi boltann. Auðvitað kemur hann utan markteigs, eins og miðvörður í návígi. Mér fannst það skrýtið víti,“ sagði Ólafur sem kveðst þó ekki hafa séð nægilega vel fyrra atvikið.

mbl.is