FH-ingar upp í Evrópusæti

Kristinn Steindórsson og Haukur Páll Sigurðsson á Origo-vellinum í kvöld.
Kristinn Steindórsson og Haukur Páll Sigurðsson á Origo-vellinum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

FH-ingar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu Valsmenn, 3:2, í stórleik 16. umferðar Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu. Daninn Morten Beck skoraði sigurmark FH-inga á 83. mínútu eftir frábæra aukaspyrnu frá Færeyingnum Brandi Olsen, sem kom inn á sem varamaður. Með sigrinum komst FH í Evrópusæti en Hafnfirðingar hafa 25 stig í 3. sæti. Valsmenn hafa 23 stig í 5. sæti.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Á meðan Valsmenn héldu boltanum betur og sköpuðu nokkrum sinnum usla í vítateig FH-inga áttu gestirnir úr Hafnarfirði fleiri skot, einkum Steven Lennon, en skotfótur Skotans var ekki rétt stilltur. Þó þurfti Hannes Þór Halldórsson, sem kom inn í lið Valsmanna á ný að taka á því í eitt skiptið, en þá varði landsliðsmarkvörðurinn í horn. Staðan markalaus í hálfleik.

Á 52. mínútu dró til tíðinda. Eftir langa sendingu ætlaði Eiður Aron Sigurbjörnsson, miðvörður Vals, sér að skalla knöttinn til baka á Hannes Þór í markinu. Það fór aftur á móti ekki betur en svo að Steven Lennon náði til boltans á undan Hannesi sem fór lítillega í Skotann sem féll við og skoraði svo sjálfur örugglega úr vítinu sem var dæmt, 1:0 fyrir FH.

Aðeins fjórum mínútum síðar blés Sigurður Hjörtur Þrastarson, dómari leiksins á ný í flautu sína og benti á punktinn. Taldi hann að Þórður Þorsteinn hefði brotið á Andra Adolfssyni inn í teig. Á svið steig Daninn Patrick Pedersen sem skoraði örugglega, 1:1.

Á 62. mínútu dæmdi Sigurður Þröstur þriðja vítið í leiknum. Taldi hann þá Daða Frey í marki FH hafa brotið á Andra sem fiskaði sitt annað víti í leiknum. Pedersen skoraði á ný afar örugglega úr vítinu, 2:1.

Á 75. mínútu jöfnuðu Hafnfirðingar metin. Eftir nokkuð þunga sókn og tvær hornspyrnur komu þeir knettinum á ný inn í teig. Daninn Morten Beck skallaði boltanum í þverslá en Björn Daníel Sverrisson var fyrstur á frákastið og þrumaði í netið, 2:2.

Fimmta mark síðari hálfleiks var einnig umdeilt, en það skoraði Daninn Morten Beck, eftir aukaspyrnu Færeyingsins Brands Olsen, sem kom inn á sem varamaður. Mögulega var brotið á Hannesi Þór Halldórssyni í aðdraganda marksins, en dómari leiksins dæmdi ekki neitt og gestirnir úr Hafnarfirði komust yfir á ný, 3:2. Urðu það lokatölur.

Valur 2:3 FH opna loka
90. mín. Fjórum mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert