Ellefu mörk Blika í Meistaradeildinni (myndskeið)

Íslandsmeistarar Breiðabliks fóru illa með Dragon, meistaralið Norður-Makedóníu, þegar liðin mættust í Meistaradeild kvenna í knattspyrnu í Bosníu um helgina en lokatölur voru 11:0.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði fjögur mörk, en Blikar voru 4:0 yfir í hálfleik. Selma Sól Magnúsdóttir og Hildur Antonsdóttir skoruðu báðar tvö mörk og þær Alexandra Jóhannsdóttir, Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoruðu eitt mark hver.

Mörkin ellefu má sjá í meðfylgjandi myndskeiði hér að ofan, en eins og kom fram í lýsingu blaðamanns mbl.is af vellinum í Sarajevó þurftu Blikar að þola skammarlega tilburði mótherjans, svo sem spörk, hrindingar, bit, klór og hnefahögg í andlit.

Lokaleikur Blika er gegn heimaliði Sarajevó á morgun, en bæði liðin hafa unnið leiki sína tvo til þessa. Blikar eru hins vegar með betri markatölu og dugar því jafntefli til þess að taka efsta sætið í riðlinum og fara áfram í 32ja liða úrslit keppninnar.

Byrjunarlið Breiðabliks í leiknum við Dragon í Sarajevó á laugardag.
Byrjunarlið Breiðabliks í leiknum við Dragon í Sarajevó á laugardag. Ljósmynd/Ingibjörg Auður
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert