Blikar af öryggi í 32ja liða úrslit Meistaradeildar

Byrjunarlið Breiðabliks gegn Sarajevó í Zenica í Bosníu í dag.
Byrjunarlið Breiðabliks gegn Sarajevó í Zenica í Bosníu í dag. Ljósmynd/Ingibjörg Auður

Breiðablik er komið áfram í 32ja liða úrslit Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu eftir sigur á Sarajevó, 3:1, í lokaleik sínum í undanriðlinum sem leikinn var í Bosníu. Blikar unnu alla þrjá leiki sína í riðlinum og markatala liðsins var 18:2.

Það var strax ljóst að þetta væri sterkasti mótherjinn sem Blikar mættu hér í Bosníu. Sarajevó-liðið þurfti að vinna leikinn til þess að komast áfram á meðan Blikum nægði jafntefli og því var kraftur í heimaliðinu. Breiðablik undirstrikaði hins vegar miklu betra líkamlegt form, tækni og leikskilning og því var aldrei hætta á því að Blikar myndu tapa leiknum.

Fyrsta markið kom á 17. mínútu þar sem Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði eftir sendingu Alexöndru Jóhannsdóttir inn á teiginn frá endamörkum hægra megin. Staðan orðin 1:0 fyrir Breiðabliki, en þetta var fyrsta markið sem Sarajevó fékk á sig í riðlinum.

Það var þó ekki það síðasta og eftir hálftíma leik kom annað markið. Heiðdís Lillýardóttir átti þá skalla eftir hornspyrnu, markvörður Sarajevó varði en endaði svo á því að blaka boltanum hálfpartinn í netið. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir átti svo þrumuskot í stöng undir lok fyrri hálfleiks, en staðan að honum loknum 2:0 fyrir Breiðabliki.

Sarajevó-liðið fann kraftinn á ný eftir hlé, enda allt undir hjá því, en Blikarnir stóðust pressuna vel. Það kom því ekki að sök þó leikurinn hafi verið nokkuð jafn, því Sarajevó skapaði sér svo til engin færi. Blikarnir sigldu sigrinum svo örugglega í höfn þegar Berglind Björg skoraði annað mark sitt og þriðja mark Blika eftir sendingu frá Selmu Sól Magnúsdóttur tæpum tíu mínútum fyrir leikslok.

Skipti þó engu að Sarajevó minnkaði muninn þegar skammt var eftir, lokatölur 3:1 fyrir Breiðabliki sem vann undanriðilinn með fullu húsi stiga og er komið áfram í keppninni. Dregið verður í 32ja liða úrslitin á föstudag.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu mbl.is frá vellinum í Zenica í Bosníu, auk þess sem leikurinn var í beinni útsendingu og sjá á upptöku af honum í myndskeiðinu sem fylgir hér að neðan.

Breiðablik 3:1 Sarajevo opna loka
90. mín. Nú steinliggur ein hjá Sarajevó en fékk ekki aukaspyrnu, við litla hrifningu liðsfélaga. Bosníska liðið á þó nú aukaspyrnu á miðjunni, en beðið er meðan hlúð er að Medic.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert