Feilspor sem breytir engu

Hlín Eiríksdóttir og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir munu berjast um Íslandsmeistaratitilinn …
Hlín Eiríksdóttir og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir munu berjast um Íslandsmeistaratitilinn til enda. mbl.is/Arnþór Birkisson

Það má segja að loks að eftir 13 umferðir hafi í fyrsta sinn dregið til tíðinda í toppbaráttu úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar. Í fyrsta sinn eru Breiðablik og Valur ekki jöfn að stigum í titilkapphlaupi sínu og Valur kominn fetinu framar.

Breiðablik gerði markalaust jafntefli við Þór/KA, en hafði áður unnið 11 leiki og aðeins gert jafntefli við Val. Það sama var uppi á teningnum á Hlíðarenda, en Valur gekk á lagið í þetta sinn með því að bursta botnlið HK/Víkings 7:0 og hefur nú tveggja stiga forskot á toppnum.

Heimaleikur Blika við Val í næstsíðustu umferð deildarinnar er hins vegar enn úrslitaleikur um titilinn. Það eina sem er breytt er að Blikar mega ekki misstíga sig aftur, annars skipta þessu töpuðu tvö stig ekki máli í stóra samhenginu. Örlögin eru enn í eigin höndum og hvorugt liðið þarf að treysta á önnur úrslit.

Fari hins vegar svo að Valur misstígi sig einnig og að lokum ráðist titillinn á markatölu er Hlíðarendaliðið í sérflokki. Valur hefur skorað 51 mark og er með 43 mörk í plús gegn 31 marki í plús hjá Breiðabliki, sem hefur skorað 43 mörk. Auk þess á Valur þrjá markahæstu leikmenn deildarinnar. Elín Metta Jensen hefur skorað 13 og þær Hlín Eiríksdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir hafa báðar skorað 12. Þær þrjár hafa samtals skorað mun meira en átta lið deildarinnar, en þriðja markahæsta liðið er Þór/KA með 24 mörk.

Ítarlegt uppgjör eftir 13. umferðina, stöðuna í M-gjöfinni besta leikmann umferðarinnar, besta unga leikmann umferðarinnar og lið umferðarinnar má finna á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert