Annar bikarúrslitaleikur FH á þremur árum

Björn Daníel Sverrisson úr FH og Óskar Örn Hauksson hjá …
Björn Daníel Sverrisson úr FH og Óskar Örn Hauksson hjá KR eigast við í kvöld. mbl.is/Arnþór

FH er komið í bikarúrslit í annað skiptið á síðustu þremur árum eftir 3:1-sigur á KR í undanúrslitum á heimavelli í kvöld. FH mætir annað hvort Víkingi R. eða Breiðabliki í úrslitaleiknum á Laugardalsvelli. 

Fyrri hálfleikur var mjög skemmtilegur og skoraði FH fyrsta markið strax á 10. mínútu. Steven Lennon skoraði þá af öryggi úr víti eftir að Arnþór Ingi braut á Brandi Olsen innan teigs. Dómurinn var afar harður þar sem snertingin var býsna lítil. 

FH var aðeins yfir í fjórar mínútur því Finnur Tómas Pálmason skoraði með skalla eftir hornspyrnu Pablo Punyed á 14. mínútu. KR var mun líklegra til að komast yfir en FH næstu mínúturnar en samt sem áður var FH með 2:1-forystu í hálfleik. 

Brandur Olsen reyndi skot úr aukaspyrnu úr þröngu færi á 41. mínútu, Beitir Ólafsson varði, en Brandur fékk annað tækifæri og skaut þá í Arnór Svein Aðalsteinsson og í bláhornið fjær. 

Seinni hálfleikurinn var ekki eins fjörugur. FH varðist mjög vel og KR gekk illa að skapa sér færi. FH nýtti sér það og komst í 3:1 tæpum 20 mínútum fyrir leikslok. Morten Beck Guldsmed skallaði þá í bláhornið eftir fyrirgjöf Brands Olsen.

Stuttu síðar komst Atli Sigurjónsson einn í gegn en hann skaut framhjá marki FH. Það reyndist síðasta góða færi leiksins og FH fær tækifæri til að vinna sinn fyrsta bikarmeistaratitil síðan 2010. 

FH 3:1 KR opna loka
90. mín. Pétur Viðarsson (FH) fær gult spjald Stöðvaði Chopart sem var á fleygiferð í átt að marki FH.
mbl.is