Blikar þurfa frekari hjálp

Arnþór Ari Atlason átti frábæran leik fyrir HK gegn KR …
Arnþór Ari Atlason átti frábæran leik fyrir HK gegn KR í 16. umferð Pepsi Max-deildarinnar. mbl.is//Hari

Enn er líf í baráttunni um Íslandsmeistaratitil karla í fótbolta þetta árið. HK sá til þess með því að valta yfir KR í Kórnum og verða þar með annað liðið í sumar, á eftir Grindavík, til að vinna KR.

Að HK hafi sprengt einhvers konar „blöðru“ KR með sigrinum verður að teljast ólíklegt, og kannski hafði bikarleikurinn í kvöld óæskileg áhrif á spilamennsku KR-liðsins, en staðan er að minnsta kosti sú að nú skilja sjö stig KR og Breiðablik þegar sex umferðir eru eftir.

Möguleikinn á að Íslandsmeistarabikarinn endi í Kópavogi er því enn raunhæfur. Breiðablik þarf meiri hjálp við að éta upp fjögur stig af forskoti KR fyrir lokaumferðina, en þá gætu Blikar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri gegn KR á Meistaravöllum. Leikjadagskrá Blika er hins vegar afar strembin, þar sem liðið á eftir fjóra leiki við lið úr efri helmingi deildarinnar, en ekki er úr vegi að skoða hvaða leiki liðin tvö eiga eftir.

KR: Víkingur R. (h), KA (ú), ÍA (h), Valur (ú), FH (h), Breiðablik (ú).

Breiðablik: Valur (h), FH (ú), Fylkir (h), Stjarnan (h), ÍBV (ú), KR (h).

Önnur lið eiga ekki raunhæfa von um Íslandsmeistaratitil. FH, HK, Stjarnan, Valur og Fylkir eru hins vegar öll með í baráttunni um 3. sæti sem færir þátttökurétt í Evrópukeppni. Öll vonast þessi lið svo til þess að Víkingur verði ekki bikarmeistari, því ef eitthvert af efstu þremur liðunum í deildinni verður bikarmeistari mun 4. sæti í deildinni gefa þátttökurétt í Evrópukeppni. KR, Breiðablik og FH eru einmitt í efstu þremur sætunum og með Víkingi í undanúrslitum bikarsins í vikunni.

HK slær hinum nýliðunum við

HK hleypti nefnilega ekki bara lífi í titilbaráttuna heldur kom liðið sér af fullum krafti í baráttuna um Evrópusæti, og fór meðal annars upp fyrir hina nýliðana í spútnikliði fyrri hluta sumars, ÍA. HK-ingar eru varkárir í yfirlýsingum og hafa hingað til eflaust frekar horft niður fyrir sig af ótta við fallhættuna en hún ætti að vera úr sögunni núna þegar liðið er með 24 stig í 4. sæti. HK þyrfti að missa sjö lið upp fyrir sig til að falla, og slá jafnframt met Víkings Ó. sem stigahæsta liðið til að falla úr deildinni, en Víkingar féllu með 22 stig fyrir tveimur árum.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag þar sem útnefndur er leikmaður 16. umferðar, besti ungi leikmaður 16. umferðar og birt úrvalslið Morgunblaðsins úr umferðinni ásamt stöðunni í M-gjöfinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »