Hlakkar í öllum þegar stórveldi hikstar

Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór

„Við vorum að mæta gríðarlega sterku KR liði sem hefur verið mjög gott í sumar. Auðvitað höfðum við trú á því að maður getur unnið," sagði Ólafur Helgi Kristjánsson, þjálfari FH, í samtali við mbl.is eftir 3:1-sigur á KR í undanúrslitum Mjólkurbikars karla í fótbolta í kvöld. 

KR var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik, en þrátt fyrir það var FH með 2:1-forystu í hálfleik. FH lék betur í seinni hálfleik. 

„Við byrjum vel og náðum inn marki; setjum saman góða sókn, fáum víti og skorum. Þeir koma sér svo inn í leikinn með sínu marki og eru sterkari í fyrri hálfleiknum. Eins og í Valsleiknum náðum við að stilla okkur að í hálfleik og eigum virkilega góðan seinni hálfleik og vinnum að mínu mati verðskuldað."

Sumum finnst Phil Collins góður trommuleikari

Ólafur gerði fjórar breytingar á liði FH í frá síðasta leik og hann var með sínar útskýringar fyrir því. 

„Þetta er ekki þannig að maður situr heima í hvítum slopp og velti fyrir sér hvernig maður getur breytt. Ein af ástæðum þess að KR er búið að vera svona gott í sumar er að þeir eru búnir að geta spila meira og minna á sama mannskap. Á meðan við höfum þurft að skipta helvíti mikið, sérstaklega í byrjun móts. Við vorum án bakvarðar fyrri hluta móts, þá þurfti Pétur að fara þangað."

Brandur Olsen hefur fengið sína gagnrýni í sumar, en hann skoraði eitt mark, lagði upp annað og náði í víti. „Þegar þú ert að koma sem erlendur leikmaður inn í deildina þarf oft aðeins meira til að sannfæra menn. Sumum finnst Phil Collins góður trommuleikari og öðrum finnst Lars Ulrich. Mér finnst Brandur frábær fótboltamaður."

Ólafur Kristjánsson
Ólafur Kristjánsson Ljósmynd/Sigfús Gunnar

FH var ekki í góðum málum fyrr í sumar og á tímabili var liðið rétt fyrir ofan fallsæti. Þrír sigar í röð hafa breytt andrúmsloftinu hjá félaginu. 

„Umræðan allra næst okkur í liðinu og hjá starfsfólkinu var ekki neikvæð. Það hlakkar í öllum þegar stórveldi hikstar aðeins. Við höfum haldið kúrs, það eru karakterar í þessu liði sem vita um hvað þetta snýst og hvernig á að gera hlutina. Þeir stíga upp þegar blæs á móti. Þess vegna höfum við klórað okkur upp úr þeirri stöðu sem við vorum komnir í."

Ólafur segir FH-inga hafa fengið SMS utan úr bæ um hvernig skal stilla upp liðinu. Hann vildi ekki gefa út hverjir það væru sem væru að senda SMS-in, en hann virðist lítið ætla að fylgja því sem í þeim stóð. 

„Á síðustu dögum höfum við fengið SMS um hvernig við eigum að stilla upp liðinu. Það er frábær hjálp en við verðum að stóla á það sem við erum að gera og halda áfram. Annað hvort tekst það, eða tekst ekki. Ef það tekst ekki er betra að falla í því sem maður er að gera og hefur trú á heldur en að hlusta á of margar raddir út í bæ. 

mbl.is