Kári ekki í leit að frægð og frama

Kári Árnason sækir að Patrick Pedersen, leikmanni Vals.
Kári Árnason sækir að Patrick Pedersen, leikmanni Vals. mbl.is/Árni Sæberg

Kári Árnason verður í eldlínunni með Víkingi R. er liðið mætir Breiðabliki í undanúrslitum Mjólkurbikars karla í fótbolta á Víkingsvelli kl. 19:15 annað kvöld. Sigurliðið mætir FH í bikarúrslitum. Kári segir mikla spennu vera hjá Víkingum, sem fóru síðast í bikarúrslit 1971. 

„Það eru miklar væntingar og það er búin að vera mikil tilhlökkun fyrir þennan leik. Við erum ekki að spila það niður og við ætlum okkur sigur og munum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess. Þetta verður erfitt en við munum gera okkar besta til að komast í bikarúrslitin. Það er búið að vera mikil uppbygging hjá okkur.

Við erum búnir að sanka að okkur góðum leikmönnum. Þetta er kannski fyrsta árið í raunverulegum uppbyggingarfasa. Ég og Sölvi erum komnir heim, Óttar er kominn heim og svo erum við með marga efnilega leikmenn eins og Ella, Gústa, Guðmund Andra, Júlíus, Viktor, Atla, það er hægt að telja upp endalaust af mönnum,“ sagði Kári við mbl.is. 

Þrír sigrar í fjórum úrslitaleikjum

Víkingur vann 3:2-sigur á Breiðabliki í Pepsi Max-deildinni á dögunum, en Kári vill sjá betri frammistöðu annað kvöld. „Við erum með hörkulið en við verðum að spila betur en á móti Blikum í deildinni. Þótt við höfum unnið þá síðast þá vorum við ekki ánægðir með frammistöðuna,“ sagði Kári sem hefur góða reynslu af bikarúrslitaleikjum. 

„Ég fór síðast með Malmö fyrir fjórum árum. Ég hef farið í þrjá bikarúrslitaleiki og unnið tvo. Svo hef ég auðvitað spilað í umspilsúrslitum á Englandi sem hægt er að kalla bikarúrslit. Þá eru þetta fjórir úrslitaleikir og þrír sigrar.“

Kári hefur fyrst og fremst leikið sem miðvörður síðan hann kom til Víkings um mitt sumar, en hann spilaði á miðjunni gegn ÍBV í deildinni í síðasta leik. 

„Það er fínt að spila þar. Það er gaman að vera á miðjunni og ég hef ágætisreynslu af því. Ég spilaði mikið á miðjunni á Englandi og í Skotlandi og svo í upphaf ferilsins. Ég sagði við Arnar að ég væri ekki í leit að frægð og frama, en ef hann telur það vera best fyrir liðið að ég spili á miðjunni, þá geri ég það,“ sagði Kári. 

mbl.is