Kvarta ekki þegar maður er alltaf að vinna

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, hafði ekki yfir miklu að kvarta þegar mbl.is ræddi við hann í gærkvöld eftir að liðið komst áfram í 32ja liða úrslit Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu eftir að hafa unnið alla þrjá leiki sína í undanriðlinum í Bosníu.

„Þetta hefur verið fínt. Heitt og gott, hótelið ágætt svo við höfum í sjálfu sér ekki yfir neinu að kvarta. Og maður kvartar ekki yfir neinu þegar maður er alltaf að vinna,“ sagði Þorsteinn, en liðið ferðast heim til Íslands í dag og um 15 tíma ferðalag fram undan. 

Þegar heim er komið tekur við baráttan á Íslandsmótinu á ný, þar sem liðið er að berjast um titilinn við Val. Þessi ferð til Bosníu hefur verið gott uppbrot frá keppninni heima.

„Þetta er skemmtileg tilbreyting. Þótt getumunurinn sé of mikill í sumum tilfellum þá er skemmtilegt að taka þátt í þessari riðlakeppni og gefur sumrinu smá líf og lit. Það er algjör bónus. Nú erum við komin áfram og fáum vonandi andstæðing sem við eigum möguleika á að vinna. Okkur langar að komast lengra,“ sagði Þorsteinn Halldórsson við mbl.is í Bosníu.

Þorsteinn Halldórsson á góðri stundu með Blikum.
Þorsteinn Halldórsson á góðri stundu með Blikum. mbl.is/Hari
mbl.is