Þeir lágu meira en þeir stóðu í lappirnar

Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór

„Við vildum vinna en það gekk ekki eftir," sagði svekktur Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, í samtali við mbl.is eftir 1:3-tap fyrir FH á útivelli í undanúrslitum Mjólkurbikars karla í fótbolta í kvöld. 

Rúnar var ekki sáttur við Helga Mikael Jónasson, dómara leiksins, sem dæmdi mjög ódýrt víti á KR í fyrri hálfleik. 

„Ef einhver datt, þá var dæmt. Ég var að segja honum að þetta væri fótboltaleikur og þar má snertingar. Mér fannst þeir henda sér fulloft niður, fremstu þrír hjá þeim fyrir utan Beck.

Varla snerting í þessari vítaspyrnu

Þá lágu þeir meira inn á vellinum en þeir stóðu. Mér fannst línan ferlega léleg í fyrri hálfleik en hún var betri í seinni hálfleik. Það var varla snerting í þessari vítaspyrnu og hann henti sér niður. Það gerðist oftar en einu sinni."

Rúnar var ánægður með fyrri hálfleikinn, þrátt fyrir að staðan væri 2:1 fyrir FH í hálfleik. Hann segir seinni hálfleikinn hafa verið erfiðari. 

„Við jöfnum fljótlega og vorum betra liðið allan fyrri hálfleikinn. Við vorum með yfirhöndina í leiknum og ógnum mikið, þótt við sköpuðum ekki mikið af færum. Við vorum í hættulegum svæðum og eigum góða möguleika. Svo fá þeir eina skyndisókn og aukaspyrnu þar sem við brjótum klaufalega af okkur og þeir skora. 

Rúnar Kristinsson
Rúnar Kristinsson Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Við þurftum að reyna að vera þolinmóðir í stöðunni 2:1 fyrir FH í seinni hálfleik Það gekk erfiðlega þar sem FH-ingar voru sterkir í vörn og lokuðu á okkur. Við sköpuðum ekkert rosalega mikið og þegar lengra dró inn í hálfleikinn þurftum við að færa okkar menn framar. Þá opnuðumst við aðeins og fengum á okkur mark sem kom þeim í 3:1, eftir það var það mjög erfitt."

KR er nú búið að tapa tveimur leikjum í röð eftir afar gott gengi þar á undan. 

„Við þurfum að taka næsta leik. Nú er það verkefni þjálfaranna og allra sem koma að liðinu að snúa þessu við. Við þurfum að halda áfram. Það eru sex leikir eftir af deildinni og við ætlum að njóta þeirra og halda áfram að ná í stig," sagði Rúnar. 

mbl.is