Þrír Skagamenn í banni í næstu umferð

Albert Hafsteinsson verður í leikbanni þegar Skagamenn heimsækja Stjörnuna á …
Albert Hafsteinsson verður í leikbanni þegar Skagamenn heimsækja Stjörnuna á sunnudaginn. mbl.is/Hari

Ellefu leikmenn úr úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, voru í gær úrskurðaðir í eins leiks bann vegna gulra spjalda og missa þeir því af leikjum sinna liða í 17. umferð deildarinnar sem fram fer á sunnudaginn og mánudaginn kemur.

Skagamennirnir Albert Hafsteinsson, Óttar Bjarni Guðmundsson og Sindri Snær Magnússon verða allir í banni þegar ÍA heimsækir Stjörnuna á Samsung-völlinn í Garðabæ. Þá verða Garðbæingar og miðverðirnir Daníel Laxdal og Martin Rauschenberg einnig í banni. 

Blikarnir Elfar Freyr Helgason og Thomas Mikkelsen verða í banni þegar Breiðablik fær Valsmenn í heimsókn og þá tekur Árbæingurinn Geoffrey Castillion út leikmenn þegar Fylkir heimsækir FH í Hafnarfjörðinn. Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, verður einnig í banni í leiknum.

Miðjumaður Grindvíkinga, Rodrigo Gomes, verður í banni þegar Grindavík fær nýliða HK í heimsókn og þá verður Sölvi Geir Ottesen, fyrirliði Víkinga, í banni þegar Víkingar heimsækja KR á Meistaravelli í Vesturbænum.

Þá verður Karitas Tómasdóttir, miðjumaður Selfoss, í banni þegar Selfyssingar fá Valskonur í heimsókn í Pepsi Max-deild kvenna í 14. umferð deildarinnar þann 21. ágúst næstkomandi. 

mbl.is