Vil ekki tjá mig um þjálfaraskiptin

Gígja Valgerður Harðardóttir hefur leikið alla leiki HK/Víkings í sumar.
Gígja Valgerður Harðardóttir hefur leikið alla leiki HK/Víkings í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var stöngin út í kvöld og það hefur ekki mikið verið að falla með okkur í sumar ,“ sagði Gígja Valgerður Harðardóttir, leikmaður HK/Víkings, í samtali við mbl.is eftir 2:0-tap liðsins gegn Fylki í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Víkingsvelli í Fossvogi í 14. umferð deildarinnar í kvöld.

„Við eigum eitt stangarskot og eitt slárskot í leiknum og það hefði eflaust breytt einhverju í leiknum ef við hefðum skorað þetta fyrsta mark í fyrri hálfleik þegar boltinn fer í stöngina og út. Svona er þetta hins vegar í þessum blessaða bolta og þú verður að nýta færin þín og halda markinu hreinu til þess að vinna leiki og það gerðum við ekki í kvöld. Mótið er hins vegar ekki búið og við höldum að sjálfsögðu áfram á meðan það er ennþá von og við eigum eftir að spila við bæði Keflavík og ÍBV og það er ekki langt í liðin fyrir ofan okkur sem er jákvætt.“

Fimm leikmenn HK/Víkings sátu til baka allan leikinn, jafnvel, þegar liðið var 2:0-undir og þurfti nauðsynlega á marki að halda, en Gígja segir að þjálfarar liðsins hafi lagt leikinn vel upp.

„Við fáum fullt af færum í leiknum og hálffærum sem við eigum einfaldlega að nýta betur. Mér fannst þjálfarateymið leggja leikinn vel upp og við vorum inn í leiknum nánast allan tímann, að undanskyldum þessum síðustu mínútum kannski, þar sem það fjaraði aðeins undan þessu hjá okkur.“

Þórhallur Víkingsson var rekinn frá félaginu 15. júlí síðastliðinn en frá því að hann var látinn fara hefur liðið fengið eitt stig af 18 stigum mögulegum. Af þeim sjö stigum sem liðið er með í dag náði HK/Víkingur í sex þeirra undir stjórn Þórhalls.

„Ég vil tjá mig sem minnst um þessi þjálfaraskpti. Ég hef ekkert út á núverandi þjálfarateymi að setja og þau hafa öll staðið sig frábærlega, alveg eins og Þórhallur gerði þegar hann var með liðið. Það hafa orðið ákveðnar breytingar á leikmannahópnum líka síðan þjálfaraskiptin áttu sér stað þannig að þetta eru ekki bara þjálfarabreytingar sem hafa átt sér stað,“ sagði Gígja í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert