Að uppskera ekki neitt er sárt

Frá leiknum í dag.
Frá leiknum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Við lögðum mikið í þetta og að uppskera ekki neitt er mjög sárt," sagði svekktur Jóhannes Karl Sigursteinsson, þjálfari KR, í samtali við mbl.is í kvöld. KR tapaði fyrir Selfossi í úrslitaleik Mjólkurbikars kvenna í fótbolta í kvöld, 2:1, í framlengdum leik. 

„Í svona leik munar í rauninni engu á milli liðanna. Þetta eru tvö hörkulið í hörkuleik. Við hefðum getað látið boltann flæða betur. Það var opið úti á vængnum hjá okkur en við náðum ekki að skipta á milli og losa okkur út úr pressunni. Heilt yfir er ég sáttur við stelpurnar sem lögðu allt í þetta.

Það er erfitt að spila við Selfoss. Þær eru sterkar í vörninni og loka sínum svæðum vel. Þær spila mikið af löngum boltum sem þarf að elta til baka og það fer mikil vinna í það. Þetta er lið sem þekkir sína styrkleika," sagði Jóhannes um leikinn. 

Guðmunda Brynja Óladóttir komst nærri því að skora oftar en einu sinni í leiknum, en það dugði ekki til. Hún er búin tað tapa fimm bikarúrslitaleikjum á sex árum. 

„Þetta er einstaklega sárt fyrir hana. Þetta er fimmti úrslitaleikurinn sem hún tapar. Hún stóð sig vel í dag. Maður sá á henni að hún vildi vinna. Hún skapaði sér góð færi í þessum leik en náði því miður ekki að klára þau."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert