Selfosshjartað slær mjög hratt í dag

Anna María og liðsfélagar hennar fagna vel og innilega í ...
Anna María og liðsfélagar hennar fagna vel og innilega í leikslok. mbl.is/Árni Sæberg

Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði Selfoss, lyfti fyrsta bikarnum í sögu félagsins í fótbolta í dag er liðið vann KR í úrslitaleik Mjólkurbikarsins á Laugardalsvelli. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 1:1, en Selfoss tryggði sér sigur í framlengingu. 

„Þetta er yndislegt. Þú sérð stuðninginn sem við erum að fá. Með hann gátum við ekki klúðrað þessu. Við ætluðum að sækja þennan bikar og þetta var aldrei spurning," sagði Anna María kát við mbl.is eftir leikinn, sem var jafn og spennandi. 

„Þetta var virkilega jafn leikur en ég held við höfum tekið þetta aðeins á forminu. Það var erfitt að stjórna boltanum, þar sem það var mikið rok á vellinum. Þetta var svolítið erfiður leikur að spila. 

Við áttum svolítið erfitt fyrstu 20-25 mínúturnar í leiknum. Við áttum erfitt með að vinna boltann og erfitt með að reikna vindinn. Eftir að við fáum markið á okkur fannst mér þetta aldrei vera spurning. Við fengum vind í seglin við þetta mark sem við fengum á okkur."

Anna María er afar glöð að fá að vera hluti af fyrsta titli í fótbolta í sögu Selfoss. 

„Þetta er geggjað og það eru forréttindi að fá að spila fyrir þetta fólk. Þetta er glæsilegt fólk sem er að fylgja okkur og það er virkilega gaman að fá að spila með þessu liði. Það er mikið um heimastelpur í þessu liði og svo aðrar sem eru orðnar mjög miklar heimastelpur núna. Selfosshjartað slær mjög hratt í dag."

Þóra Jónsdóttir skoraði sigurmarkið með skoti fyrir utan teig á 102. mínútu í framlengingu. Það var hennar fyrsta mark á ferlinum. 

„Þóra hefur verið að setja nokkrar slummur á æfingu. Eitt og eitt skot hjá henni í sumar hafa verið að detta röngu megin við stangirnar, það er geggjað fyrri hana að setja þetta mark," sagði fyrirliðinn. 

mbl.is