Bæði lið ósátt eftir jafntefli í Grindavík

Emil Atlason og Marc McAusland mættust í Grindavík í dag.
Emil Atlason og Marc McAusland mættust í Grindavík í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Grindavík og HK skildu jöfn, 1:1, á Mustad-vellinum í Grindavík í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í dag. Grindvíkingar eru því áfram í fallsæti og HK-ingum tókst ekki að tylla sér í þriðja sætið í Evrópubaráttu sinni.

Grindvíkingar voru aðeins búnir að vinna einn af síðustu 11 deildarleikjum sínum fyrir viðureign dagsins og sem fyrr gekk þeim illa að skora mörk. HK-ingar hafa hins vegar verið á siglingu, unnið sex af síðustu sjö og þeir byrjuðu betur í dag.

Fyrsta markið kom á 28. mínútu eftir að Josip Zeba virtist brjóta á Birki Val Jónssyni inn í vítateig. Atli Arnarson steig á punktinn og skoraði af öryggi til að koma gestunum í forystu. Þrátt fyrir góða byrjun og þetta mark komust HK-ingar þó aldrei á það skrið sem þeir hafa verið á undanfarnar vikur.

Grindvíkingar, sem berjast fyrir lífi sínu í fallbaráttunni, náðu að kreista fram jöfnunarmark á 79. mínútu þegar Stefan Ljubicic skoraði af stuttu færi á fjærstönginni eftir hornspyrnu. Eftir þetta reyndu bæði lið allt hvað þau gátu til að knýja fram sigurmark. Bjarni Gunnarsson komst næst því fyrir gestina, bæði með skoti yfir og skalla sem Vladan Djogatovic varði vel en fleiri urðu mörkin ekki.

Grindavík er því enn þá í 11. sætinu, fallsæti, nú með 18 stig, stigi á eftir Víkingum sem eiga leik gegn KR á morgun. HK er í 4. sæti með 25 stig.

Grindavík 1:1 HK opna loka
90. mín. Þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert