Brandur tryggði FH öll stigin

FH-ingurinn Brandur Olsen með boltann í kvöld en Ragnar Bragi …
FH-ingurinn Brandur Olsen með boltann í kvöld en Ragnar Bragi Sveinsson úr Fylki sækir að honum. mbl.is/Árni Sæberg

Brandur Olsen tryggði FH 2:1-sigur á Fylki í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Brandur skoraði bæði mörk FH, það síðara á 90. mínútu. FH-ingar eru áfram í þriðja sæti deildarinnar, nú með 28 stiga en Fylkir er í áttunda sæti með 22.

Fyrri hálfleikur var með rólegra móti í kvöld. Gestirnir lágu til baka og uppspil FH-inga var lengst af hægt og fyrirsjáanlegt.

Þeir fengu þó eitt úrvalsfæri þegar Atli Guðnason skaut boltanum í þverslá á 41. mínútu eftir frábæran undirbúning Morten Beck.

Fjörið var meira í seinni hálfleik. Ólafur Ingi Skúlason kom Fylki yfir eftir fimm mínútna leik í hálfleiknum þegar hann stangaði boltann í markið eftir hornspyrnu.

Við mark Fylkis hresstust FH-ingar. Morten Beck klúðraði dauðafæri þremur mínútum eftir markið þegar hann skallaði boltann beint í Stefán Loga í marki Fylkis af eins metra færi.

Brandur Olsen jafnaði svo leikinn á 61. mínútu. Hann þrumaði þá að marki, töluvert utan vítateigs og boltinn hafnaði í markhorninu á marki Fylkis. FH-ingar fögnuðu en Stefán Logi hefði án vafa átt að gera mun betur.

Brandur tryggði FH svo sigurinn þegar hann skoraði með góðu skoti á 90. mínútu. Sóknarmaðurinn Morten Beck var rekinn af velli í uppbótartíma þegar hann virtist stíga á andlitið á Ólafi Inga Skúlasyni.

FH 2:1 Fylkir opna loka
90. mín. Brandur Olsen (FH) skorar 2:1 - FH er að klára þetta! Brandur leikur upp að vítateigslínu og skorar með föstu skoti niðri í vinstra hornið!
mbl.is