Ég var drullustressaður

Baldur Sigurðsson (aftari Stjörnumaðurinn) í leiknum í kvöld.
Baldur Sigurðsson (aftari Stjörnumaðurinn) í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Baldur Sigurðsson, fyrirliði Stjörnunnar, var sáttur við 3:1-sigur liðsins á ÍA í Pepsi Max-deildinni í kvöld. Staðan í hálfleik var 1:1 eftir að ÍA jafnaði í blálok fyrri hálfleiks en Stjarnan komst aftur yfir í byrjun seinni og eftir það var ekki að spyrja að leikslokum. 

„Mér fannst við allt í lagi í fyrri hálfleik en þeir voru aðeins að valda okkur vandræðum. Svo skoraði Sölvi frábært mark. Við fengum svo á okkur mark rétt fyrir hálfleik og það er vont. Að sama skapi var jafn vont fyrir þá og jafn gott fyrir okkur að skora svona snemma í seinni. Það gaf okkur orku í að vinna sanngjarnan sigur.

Við erum búnir að fá margar tuskur í okkur í sumar og við erum orðnir vanir því. Loksins gerðum við vel úr því og ekkert kjaftæði. Við fórum bara út og svöruðum. Við sýndum drápseðli gegn breyttu Skagaliði," sagði Baldur í samtali við mbl.is. 

Baldur spilaði sem miðvörður í leiknum og viðurkennir að það sé stressandi að spila stöðu sem hann er óvanur. 

„Eftir leikinn kann ég vel við það. Ég var drullustressaður, en ég fékk að vita það í byrjun vikunnar að ég myndi spila þessa stöðu. Það er mjög langt síðan ég gerði það síðast. Það var í einhverjum varaleik hjá SönderjyskE, það var ekki merkilegra en það."

Baldur segir Stjörnuna ætla sér Evrópusæti, en til þess þarf liðið að eiga góðan lokakafla í sumar. 

„Það eru fimm lið sem koma í viðtöl og segjast ætla að ná í Evrópusæti. Við erum eitt af þeim. Við þurfum að hala inn 12-15 stig í viðbót ef við ætlum að hafa þetta og það þýðir ekkert annað," sagði Baldur. 

mbl.is