Eina sem við pælum í er næsti leikur

Jóhannes Karl Guðjónsson.
Jóhannes Karl Guðjónsson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, var svekktur eftir 1:3-tap sinna manna fyrir Stjörnunni í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld. Stjarnan var sterkari aðilinn í leiknum og vann sanngjarnan sigur. 

„Við vissum að Stjarnan er með hörkugott lið, vel mannað og sterkir fram á við. Þeir eru með gæði og líkamlegan styrk sem við ætluðum að stoppa betur en við gerðum í dag. Við hleypum þeim á allt of auðveldan hátt í forystu í leiknum.

Við töluðum um það í hálfleik að við ætluðum að stoppa fyrirgjafir og skot. Það var alt of erfitt fyrir okkur að gefa þeim þetta forskot svona snemma í seinni hálfleik," sagði Jóhannes í samtali við mbl.is. 

ÍA hefur tapað fjórum leikjum í röð og aðeins unnið einn af síðustu tólf í öllum keppnum. 

„Við höfum verið að glíma við hræringar í leikmannahópnum. Það hafa verið meiðsli og leikbönn. Það hefur oft á tíðum verið erfitt, samt sem áður ætla ég ekki að nota það sem afsökun, því við hefðum getað varist mikið betur í kvöld. 

ÍA er aðeins fjórum stigum fyrir ofan Grindavík, sem er í fallsæti. „Þetta er ótrúlega jöfn deild, það er stutt upp og stutt niður. Það eina sem við erum að pæla í er næsti leikur og þar eru þrjú stig í boði," sagði Jóhannes Karl. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert