„Hann endar á því að stíga á andlitið á mér“

Ólafur Ingi Skúlason í baráttunni gegn FH.
Ólafur Ingi Skúlason í baráttunni gegn FH. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég næ af honum boltanum. Hann brýtur á mér og endar á því að stíga á andlitið á mér þegar ég dett.“ Þannig lýsir Ólafur Ingi Skúlason, fyrirliði Fylkis, því þegar Morten Beck var rekinn af velli í leik FH og Fylkis í kvöld en FH vann 2:1-sigur.

Morten Beck kom til Ólafs Inga eftir leik og sagði að um óviljaverk hefði verið að ræða. „Ég veit það ekki. Alla vega steig hann á andlitið á mér,“ segir Ólafur Ingi við blaðamann.

Hann brást, ef til vill skiljanlega, hinn versti við. Atvikið átti sér stað á 90. mínútu og var mikill hiti í Fylkismönnum. 

„Ég var ekkert mjög ánægður, mér fannst hann bara stíga á andlitið á mér. Ég hef ekki séð þetta aftur en upplifun mín er að ég fæ bara sóla í andlitið. Ég verð kannski full reiður en það er kannski bara eðlilegt,“ segir Ólafur Ingi.

Fyrir utan að fá sóla í andlitið töpuðu Ólafur Ingi og félagar leiknum á grátlegan hátt en Brandur Olsen skoraði sigurmark FH á 90. mínútu. Ólafur Ingi segir að Fylkismenn hafi fallið full aftarlega eftir að hafa komist yfir í upphafi seinni hálfleiks og þar með boðið hættunni heim.

„Þeir refsuðu okkur í lokin og fá stigin þrjú,“ segir fyrirliðinn.

Með sigri hefði Fylkir náð FH að stigum en Árbæingar eru í áttunda sæti með 22 stig. Þeir virðast sigla nokkuð lygnan sjó en Ólafur segir að það sé stutt á milli í deildinni. 

„Hver einasti leikur skiptir miklu máli. Við þurfum bara að taka næsta leik og vinna hann. Byggjum á því sem var gott í dag og lögum það sem var slæmt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert