Skagamenn gætu dregist í fallbaráttu

Alex Þór Hauksson og Bjarki Steinn Bjarkason eigast við í …
Alex Þór Hauksson og Bjarki Steinn Bjarkason eigast við í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Stjarnan vann sannfærandi 3:1-sigur á ÍA í Pepsi Max-deild karla í fótbolta á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld. Stjörnumenn voru töluvert sterkari allan leikinn. 

Staðan í hálfleik var 1:1, þrátt fyrir að Stjörnumenn hafi verið mikið betri aðilinn. Stjarnan fékk fullt af færum og var það verðskuldað þegar Sölvi Snær Guðbjargarson skoraði fyrsta markið á 25. mínútu. 

Eftir skemmtilega sókn sendi Eyjólfur Héðinsson á Sölva sem skaut í Hall Flosason og þaðan skaust boltinn í stöngina og inn. Stjarnan hélt áfram að vera sterkari aðilinn, en þrátt fyrir það tókst ÍA að jafna fyrir hálfleik. 

Vinstri bakvörðurinn Aron Kristófer Lárusson tók þá hornspyrnu og gerði sér lítið fyrir og skaut boltanum í boga yfir Harald Björnsson í marki Stjörnunnar og í netið. Það reyndist síðasta spyrna hálfleiksins og var staðan jöfn í leikhléi. 

Stjörnumenn voru ekki lengi að komast aftur yfir í seinni hálfleik. Um hálfri mínútur eftir að hálfleikurinn var flautaður á var Þorsteinn Már Ragnarsson búinn að skora. Sölvi Snær átti þá sendingu fyrir markið og Þorsteinn átti ekki í vandræðum með að skora á fjærstönginni. 

Stjarnan hélt áfram að vera sterkari og þriðja mark liðsins kom á 70. mínútu. Jósef Kristinn Jósefsson sendi þá á kollinn á Baldri Sigurðssyni úr hornspyrnu og Baldur skilaði boltanum í netið. 

Eftir það voru Skagamenn ekki líklegir til að minnka muninn og Stjörnumenn fögnuðu sanngjörnum sigri. ÍA hefur nú aðeins unnið einn leik af síðustu tólf í öllum keppnum og er ákveðið lánleysi sem eltir liðið. ÍA gæti dregist í fallbaráttuna á meðan Stjarnan er í hörðum slag um sæti í Evrópukeppni á næsta ári. 

Stjarnan 3:1 ÍA opna loka
90. mín. Aron Kristófer Lárusson (ÍA) fær gult spjald Reynir við boltann en sparkar óvart í Alex. Óviljaverk en fær samt sem áður spjald.
mbl.is