Þrótt og FH vantar einn sigur í viðbót

Þróttur er einum sigri frá sæti í úrvalsdeildinni.
Þróttur er einum sigri frá sæti í úrvalsdeildinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þróttur og FH þurfa bæði einn sigur til viðbótar til að tryggja sér sæti í úrvalsdeild kvenna í fótbolta eftir sigra í kvöld, þrátt fyrir að fjórar umferðir séu eftir af deildinni. Þróttur mætir ÍA í næstu umferð og FH mætir grönnum sínum í Haukum.

Staðan, úrslit og næstu leikir í Inkasso-deild kvenna

Topplið Þróttar hafði betur gegn Aftureldingu á heimavelli, 2:0. Linda Líf Boama kom Þrótti yfir á 26. mínútu og Álfhildur Rósa Kjartansdóttir bætti við marki á 41. mínútu og þar við sat. 

FH lenti í smá veseni með botnlið ÍR á útivelli, en vann að lokum 1:0-sigur. Birta Stefánsdóttir skoraði sigurmarkið á 51. mínútu. Marta Quental fékk beint rautt spjald hjá ÍR undir lokin.

Þróttur er í toppsætinu með 36 stig, FH í öðru sæti með 35 stig og svo Tindastóll í þriðja sæti með 25 stig. 

FH vantar einnig aðeins einn sigur til viðbótar.
FH vantar einnig aðeins einn sigur til viðbótar. mbl.is/Arnþór

Haukar unnu sinn þriðja leik í röð og sjötta af síðustu sjö er liðið vann sannfærandi 4:1-sigur á ÍA. Skagakonur komust yfir á 11. mínútu með marki Andreu Magnúsdóttur en Haukar svöruðu með þremur mörkum fyrir hlé og einu í byrjun seinni hálfleiks. Vienna Behnke gerði tvö þeirra og Sæunn Björnsdóttir og Kristín Fjóla Sigþórsdóttir skoruðu einnig. 

Grindavík og Fjölnir mættust í Grindavík og lauk leiknum með 1:1-jafntefli. Birta Hallgrímsdóttir kom Grindavík yfir á 17. mínútu en Sara Montoro jafnaði á 61. mínútu. 

Staðan í Inkasso-deild kvenna.
Staðan í Inkasso-deild kvenna. mbl.is
mbl.is