Vonbrigði takist ekki að ná Evrópusæti

Birkir Már Sævarsson skorar fyrsta mark leiksins eftir laglega sókn ...
Birkir Már Sævarsson skorar fyrsta mark leiksins eftir laglega sókn og fyrirgjöf frá Sigurði Agli Lárussyni. mbl.is/Árni Sæberg

Eiður Aron Sigurbjörnsson, varnarmaður Vals, þurfti að sætta sig við að fá á sig þrjú mörk gegn Breiðabliki í Pepsí Max-deildinni í Kópavogi í kvöld þegar liðin gerðu 3:3 jafntefli. 

Eiður sagðist lítið botna í því hvers vegna Valsliðið gaf eftir í leiknum, eftir að hafa snemma komist í 2:0, þegar mbl.is spjallaði við hann.

„Þetta er grautfúlt. Við byrjuðum svo vel og fórum í 2:0 en svo slokknar einhvern veginn á okkur. Þetta er saga sumarsins því ég veit ekki hversu oft við höfum tapað niður tveggja marka forystu. Þetta er orðið þreytt og eitthvað sem við þurfum að fara vel yfir. Ég veit ekki hvort menn slaka eitthvað á eða hvað en slíkt á auðvitað ekki að gerast. Ef ég vissi svarið við því hvernig við eigum að laga þetta þá værum við búnir að því,“ sagði Eiður og spurður út í hvort Valur hafi náð einu stigi í kvöld eða tapað tveimur sagði hann að horfa mætti á það á báða vegu. „Miðað við byrjunina í leiknum þegar voru þetta töpuð stig en úr því sem komið var þá tökum við eitt stig.“

Hversu ofarlega telur Eiður að Valur geti klifrað í töflunni en liðið er nú í 6. sæti? „Markmiðið er að ljúka mótinu eins vel og við getum en það yrðu klárlega vonbrigði ef við næðum ekki Evrópusæti. Nú eru fimm leikir eftir og við reynum að fá eins mörg stig og við mögulega getum. Næsti andstæðingur er Stjarnan að ég held að við vinnum þá vonandi,“ sagði Eiður í samtali við mbl.is. 

Eiður Aron Sigurbjörnsson
Eiður Aron Sigurbjörnsson mbl.is/Sigfús Gunnar
mbl.is