Blikar sóttu þrjú stig í Vesturbæinn

Lilja Dögg Valþórsdóttir og Agla María Albertsdóttir eigast við í …
Lilja Dögg Valþórsdóttir og Agla María Albertsdóttir eigast við í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breiðablik kom til baka í seinni hálfleik og vann 2:1-sigur gegn KR í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Meistaravöllum í Vesturbænum í 14. umferð deildarinnar í kvöld. Vesturbæingar leiddu 1:0 í hálfleik en Blikar skoruðu tvívegis í síðari hálfleik og unnu afar dýrmætan sigur í toppbaráttunni.

Vesturbæingar byrjuðu leikinn betur og strax á 6. mínútu datt boltinn fyrir Guðmundu Brynju Óladóttur í vítateig Blika en skot hennar fór hátt yfir markið. Fjórum mínútum síðar fékk Guðmunda sannkallað dauðafæri þegar hún fékk frítt skot úr teignum eftir laglegt samspil Vesturbæinga en skot hennar fór beint á Sonný Láru Þráinsdóttur í marki Breiðabliks. Blikar unnu sig ágætlega inn í leikinn eftir þetta og liðin skiptust á að sækja. Alexandra Jóhannsdóttir fékk dauðafæri til þess að koma Blikum yfir á 13. mínútu þegar hún horti frákast eftir aukaspyrnu frá Öglu Maríu Albertsdóttir en Ingibjörg varði vel í marki KR. Á 17. mínútu átti Kristín Dís Árnadóttir skalla að marki en KR-ingar björguðu nánast á marklínu. Þremur mínútum síðar átti Selma Sól Magnúsdóttir fallega sendingu inn fyrir vörn KR-inga á Berglindi Björgu Þorvalsdóttur sem tók hann viðstöðulaust með vinstri en boltinn fór í stöngina og út.

Leikurinn róaðist talsvert eftir þetta en á 32. mínútu átti Guðmunda Brynja skot úr vonlausri stöðu upp við endamörk vallarins. Á einhvern óskiljanlegan hátt fór boltinn undir Sonný Láru og í netið og staðan orðin 1:0. Blikum tókst ekki að skapa sér afgerandi marktækifæri eftir þetta og Vesturbæingar fóru með 1:0-forystu inn í hálfleik. Blikar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og strax á 48. mínútu fékk Berglind Björg sannkallað dauðafæri þegar Selma Sól átti flotta sendingu fyrir markið en framherjinn hitti ekki boltann. Sex mínútum síðar átti Agla María flotta fyrirgjöf frá vinstri en Selma Sól skaut yfir markið af stuttu færi úr öðru dauðafæri.

Leikurinn róaðist aðeins eftir þetta en á 65 mínútu átti Berglind Björg laglega stungusendingu á Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur en skot hennar var lélegt og fór beint á Sonný Láru í marki Blika. Þremur mínútu síðar átti Berglind aftur stungusendingu á Karólínu sem gerði engin mistök í þetta skiptið og kláraði snyrtilega fram hjá Ingibjörgu í markinu og staðan orðin 1:1. Níu mínútum síðar átti Ásta Eir frábæra fyrirgjöf fyrir markið frá hægri á Berglindi Björgu sem stýrði boltanum yfir Ingibjörgu á nærstönginni og staðan orðin 2:1. Blikar ógnuðu meira eftir þetta og Lilja Valþórsdóttir bjargaði á marklínu eftir skalla Alexöndru Jóhannsdóttur á 86. mínútu. Leikurinn fjaraði hægt og rólega út eftir þetta og Blikar fögnuðu sigri í leikslok.

KR er áfram í sjöunda sæti deildarinnar með 13 stig, þremur stigum frá fallsæti, en Breiðablik er áfram í örðu sæti deildarinnar með 38 stig, tveimur stigum minna en topplið Vals.

KR 1:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið með 2:1-sigri Blika.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert