Skelfilegt að missa af undirbúningstímabilinu

Sigurður Egill Lárusson missti af stórum hluta undirbúningstímabilsins með Valsmönnum …
Sigurður Egill Lárusson missti af stórum hluta undirbúningstímabilsins með Valsmönnum síðasta vetur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Egill Lárusson, leikmaður Vals í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, var borinn af velli vegna meiðsla í 3:3-jafntefli liðsins gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli í vikunni í 17. umferð Pepsi Max-deildarinnar. Sigurður tognaði í nára og hann á allt eins von á því að spila ekki meira með Valsmönnum í sumar.

„Eftir samtal við lækni þá er það alveg viðbúið að ég muni missa af restinni af tímabilinu,“ sagði Sigurður Egill í samtali við mbl.is í dag. „Það er ákveðið óvissuástand með þetta og það gæti vel verið að ég verði orðinn klár eftir landsleikjahlé, þann 16. september, þegar við fáum KR í heimsókn en það er of snemmt að segja til um það.“

Sigurður missti af stórum hluta undirbúningstímabilsins með Valsmönnum og var lengi í gang í sumar, líkt og aðrir leikmenn liðsins, sem tóku ekki virkan þátt í undirbúningstímabilinu.

„Maður sér það bara núna hversu ótrúlega mikilvægt þetta blessaða undirbúningstímabil er og það var í raun alveg skelfilegt svona eftir á að hafa misst alveg af því. Það tók mig bara nokkra leiki að spila mig í gang í sumar. Við stilltum nánast aldrei upp sama liðinu, allt undirbúningstímabilið, og það sést bara á gengi liðsins í sumar hversu mikilvægt það er að allir séu með frá byrjun.“

Valsmenn eru í sjötta sæti deildarinnar með 24 stig þegar fimm leikir eru eftir af tímabilinu en þeir Ólafur Karl Finsen og Lasse Petry verða ekki meira með í sumar.

„Við ætluðum okkur stærri hluti í sumar, það er alveg á hreinu, en að sama skapi erum við allir meðvitaðir um það að gengi liðsins hefur bara ekki verið gott. Þetta hefur verið lélegt og við ætlum okkur að gera miklu betur næsta sumar,“ sagði Sigurður Egill í samtali við mbl.is.

Sigurður Egill Lárusson í leik með Valsmönnum gegn ÍBV á …
Sigurður Egill Lárusson í leik með Valsmönnum gegn ÍBV á Hlíðarenda í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert