Keflavík sótti sigur í Laugardalinn

Keflvíkingar náðu í þrjú stig í Laugardalinn.
Keflvíkingar náðu í þrjú stig í Laugardalinn. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Keflavík gerði góða ferð í Laugardalinn í kvöld og vann 3:1-sigur á Þrótti í 18. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu, Inkasso-deildarinnar.

Þorri Mar Þórisson, lánsmaður frá KA, skoraði sitt fyrsta mark fyrir Keflavík snemma leiks og áður en fyrri hálfleikur var úti voru þeir Ísak Óli Ólafsson og Adolf Bitegeko búnir að koma Keflavík í 3:0. Jasper van der Heyden lagaði stöðuna fyrir Þrótt í síðari hálfleik en þar við sat.

Keflavík komst með sigrinum upp í fimmta sætið með 28 stig, stigi meira en Víkingur Ólafsvík sem vann topplið Fjölnis fyrr í kvöld. Þróttur er hins vegar í áttunda sætinu með 21 stig.

Í lokaleik kvöldsins í 1. deild kvenna gerðu Afturelding og Augnablik 1:1 jafntefli. Vigdís Lilja Kristjánsdóttir kom Augnabliki yfir eftir markalausan fyrri hálfleik en Darian Powell jafnaði fyrir Aftureldingu fimm mínútum fyrir leikslok.

Afturelding er í fimmta sætinu með 21 stig en Augnablik er í áttunda sæti með 15 stig eins og Grindavík en með lakari markatölu.

Markaskorarar fengnir frá urslit.net

Afturelding bjargaði stigi gegn Augnabliki.
Afturelding bjargaði stigi gegn Augnabliki. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is