KF í góðum málum eftir ótrúlegan leik

Alexander Már Þorláksson er langmarkahæstur í deildinni með 21 mark.
Alexander Már Þorláksson er langmarkahæstur í deildinni með 21 mark. Ljósmynd/Facebook-síða KF

KF frá Fjallabyggð vann Hött/Hugin í ótrúlegum leik í 18. umferð 3. deildar karla í fótbolta í dag, 4:3, á Egilsstöðum og á nú alla möguleika á sæti í 2. deild.

Alexander Már Þorláksson og Aksentje Milisic komu KF í 2:0 á fyrsta hálftímanum en Rúnar Freyr Þórhallsson minnkaði muninn í 2:1 fyrir hlé. 

Staðan, úrslit og næstu leikir í 3. deild karla

Alexander Már skoraði annað markið sitt og þriðja mark KF snemma í seinni hálfleik en Höttur/Huginn neitaði að gefast upp. Knut Myklebust minnkaði muninn í 3:2 á 64. mínútu og fimm mínútum síðar jafnaði Ivan Bubalo í 3:3. KF átti hins vegar síðasta orðið því Grétar Áki Bergsson skoraði sigurmarkið á 76. mínútu. 

KF er í öðru sæti deildarinnar með 44 stig, einu stigi á eftir Kórdrengjum, þegar fjórar umferðir eru eftir. Þar á eftir kemur KV með 35 stig. Staða Kórdrengja og KF er því ansi vænleg, en efstu tvö liðin tryggja sér sæti í 2. deild. 

Í Sandgerði hafði Reynir betur gegn Einherja, 3:2. Björn Andri Ingólfsson kom Einherja yfir á 15. mínútu en Aleksandar Jeftic og Magnús Magnússon komu Reyni í 2:1 fyrir leikhlé. Varamaðurinn Georgi Karaneychev jafnaði í 2:2, mínútu eftir að hann kom inn á, en gamla kempan Hörður Sveinsson skoraði sigurmark Reynis úr víti á 83. mínútu. 

Þá vann KH öruggan 4:0-sigur á Sindra á Valsvellinum á Hlíðarenda. Markaskorar leiksins liggja ekki fyrir, en fréttin verður uppfærð. 

Umferðin hófst á miðvikudagskvöld er Kórdrengir unnu Augnablik á heimavelli, 3:1. Á fimmtudaginn unnu Vængir Júpíters 2:1-sigur á Álftanesi. Í gær vann KV svo einstaklega sannfærandi 8:1-sigur á Skallagrími á heimavelli. 

Staðan í 3. deild karla.
Staðan í 3. deild karla. mbl.is
mbl.is