Ef við trúum ekki sjálfar þá trúir enginn

Bryndís Arna Níelsdóttir skallar boltann með Fylki í sumar.
Bryndís Arna Níelsdóttir skallar boltann með Fylki í sumar. mbl.is/Arnþór

Bryndís Arna Níelsdóttir er ein af þremur leikmönnum meistaraflokks Fylkis sem er enn gjaldgeng í þriðja flokk félagsins. Hún átti marga góða spretti í framlínunni gegn toppliði Vals í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu í dag.

Þetta var þó langt frá því að vera fyrsti leikur Bryndísar með meistaraflokki en leikurinn var hennar 31. Lið hennar lá þó í valnum 1:5 á heimavelli. Bryndís hafði þetta að segja um fyrirætlanir síns liðs í dag:

„Við ætluðum að vera mjög vel skipulagðar í þessum leik, vinna vel og berjast fyrir hvora aðra. Við ætluðum að vera duglegar að halda boltanum niðri og reyna að spila okkur í gegn án þess að vera óþolinmóðar. Svo var bara að finna glufur í vörninni og skapa okkur færi. Okkur tókst það svo sem  fyrsta hálftímann eða svo,“ sagði Bryndís, en Valur var 3:0 yfir í hálfleik.

„Eftir fyrsta markið misstum við aðeins hausinn, byrjuðum að flýta okkur og hættum að vera skynsamar einsog við ætluðum að vera. Þá settu þær strax fleiri mörk á okkur. Við reyndum eins og við gátum að koma til baka í seinni hálfleik en náðum bara að skapa okkur nokkur hálffæri,“ sagði Bryndís, en sigurganga Fylkis síðan 15. júlí er nú á enda.

„Markmiðið hjá okkur er auðvitað að vinna þá leiki sem við eigum eftir og ég hef alveg trú á því að við munum geta það. Ef við trúum því ekki sjálfar þá trúir því enginn,“ sagði Bryndís Anna Níelsdóttir. Næstu andstæðingar Fylkis eru Selfyssingar á útivelli 8. september. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert