Mögnuð endurkoma Blika gegn tíu FH-ingum

Davíð Ingvarsson hjá Breiðabliki reynir að ná til boltans á …
Davíð Ingvarsson hjá Breiðabliki reynir að ná til boltans á undan FH-ingnum Steven Lennon. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik styrkti stöðu sína í öðru sæti Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu eftir 4:2 sigur gegn FH-ingum í Kaplakrika í kvöld.

Með sigrinum náðu Blikar fimm stiga forskoti á FH í öðru sæti deildarinnar og eru nú sjö stigum á eftir toppliði KR-inga þegar liðin eiga fjóra leiki eftir.

FH-ingar fengu óskabyrjun en eftir 17 mínútna leik voru þeir komnir 2:0 yfir með mörkum frá Steven Lennon og Atla Guðnasyni gegn sofandi leikmönnum Breiðabliks. Viktor Örn Margeirsson lagaði stöðuna fyrir Blikana á 23 mínútu og FH var 2:1 yfir í hálfleik.

Vendipunktur leiksins leit dagsins ljós á 54. mínútu þegar Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, var rekinn af velli fyrir að brjóta á Brynjólfi Darra Willumssyni sem var að sleppa einn í gegn.

Það er óhætt að segja að Blikarnir hafi fært sér liðsmuninn vel í nyt. Þeir jöfnuðu leikinn þremur mínútum eftir að Davíð var rekinn af velli með marki frá Höskuldi Gunnlaugssyni. Danski framherjinn Thomas Mikkelsen sá svo um að tryggja Kópavogsliðinu sigurinn.

Hann skoraði tvívegis á tíu mínútna kafla og eftir það var aldrei spurning hvorum megin sigurinn lenti. Þar með hafa Blikar náð að skora fjögur mörk gegn FH í þremur leikjum í röð og hafa unnið fimm síðustu viðureignir liðanna.

Breiðablik er með 33 stig í öðru sæti deildarinnar en FH-ingar eru með 28 stig í þriðja sætinu.

FH 2:4 Breiðablik opna loka
90. mín. Gísli Eyjólfsson (Breiðablik) á skot framhjá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert