Tilfinningarnar gerðu vart við sig

Dagný Brynjarsdóttir fagnar marki sínu gegn Ungverjum í gærkvöld.
Dagný Brynjarsdóttir fagnar marki sínu gegn Ungverjum í gærkvöld. Eggert Jóhannesson

Dagný Brynjarsdóttir lék sinn fyrsta mótsleik fyrir Ísland í tæp tvö ár þegar Ísland vann Ungverjaland í gærkvöldi. Enn lengra er síðan hún lék mótsleik fyrir Ísland á heimavelli og hún komst við í aðdraganda leiksins.

„Þetta var ógeðslega gaman. Ég er ekki beint tilfinningarík manneskja en ég viðurkenni að tilfinningarnar gerðu vart við sig þegar ég hlustaði á þjóðsönginn. Mér leið öðruvísi en ég hafði búist við. Það var gaman að koma aftur inn í liðið og byrja nýtt mót á sigri. Ég hafði í rauninni ekki spilað leik á Íslandi í tvö ár og síðasti mótsleikur var gegn Tékkum úti í undankeppni HM,“ sagði Dagný þegar Morgunblaðið tók hana tali á Laugardalsvelli.

„Okkar leikur leit ekkert allt of vel út um tíma í fyrri hálfleik en við fórum vel yfir málin í hálfleik. Við vorum sterkar í síðari hálfleik og það er mikilvægt að skora nokkur mörk.“

Dagný skoraði þriðja mark Íslands í gær en hún skoraði einnig í leiknum sem hún minntist á, gegn Tékkum ytra, í lok október 2017. Skiptir máli fyrir sjálfstraustið hjá henni að skora í fyrsta mótsleik eftir barneignarfríið?

„Nei nei og mér finnst engu máli skipta hver skorar mörkin. En ég myndi segja að það hafi skipt máli að ég skoraði miðað við hversu mörg færi ég fékk. Ég hefði getað gert betur í öðrum færum og fékk tækifæri til að skora þrjú mörk í leiknum. En ég er sátt við niðurstöðuna,“ sagði Dagný ennfremur. 

Ítarlega er fjallað um sigur Íslands á Ungverjum á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »