Kórdrengir upp og Skallagrímur fallinn

Kórdrengir fagna sætinu í 2. deild í dag.
Kórdrengir fagna sætinu í 2. deild í dag. Ljósmynd/Kórdrengir

Kórdrengir eru komnir upp í 2. deild karla í fótbolta eftir 2:1-sigur á KF frá Fjallabyggð í toppslag á Ólafsfjarðarvelli í 3. deildinni í kvöld. Kórdrengir fóru upp í þriðju deildina á síðustu leiktíð og hafa því farið upp um tvær deildir á tveimur árum. 

Staðan, úrslit og næstu leikir í 3. deild karla

Alexander Magnússon kom Kórdrengjum yfir á sjöundu mínútu og Einar Orri Einarsson bætti við marki á 32. mínútu. Alexander Már Þorláksson minnkaði muninn á 43. mínútu en nær komust heimamenn ekki. 

Kórdrengir eru með 48 stig í toppsætinu, fjórum stigum á undan KF. Þrátt fyrir tapið er KF einnig í vænlegum málum með 44 stig í öðru sæti og þarf liðið fjögur stig í síðustu þremur leikjum sínum til að fara upp með Kórdrengjum. 

KV er með 38 stig á enn möguleika á að fara upp eftir 4:0-sigur á Sindra á Hornafirði. Garðar Ingi Leifsson, Einar Már Þórisson og Arnór Siggeirsson skoruðu fyrir KV og eitt markanna var sjálfsmark. 

Skallagrímur er fallinn niður í 4. deild eftir 1:4-tap fyrir Hetti/Hugin á heimavelli. Ivan Bubalo skoraði þrennu fyrir Hött/Hugin og Knut Myklebust skoraði eitt mark. Christofer Rolin skoraði mark Skallagríms er hann minnkaði muninn í 2:1. 

Einherji og KH gerðu 1:1-jafntefli á Vopnafirði. Einherji komst yfir með sjálfsmarki á 32. mínútu en Mías Ólafarson jafnaði á 87. mínútu og þar við sat. 

Staðan í 3. deild karla.
Staðan í 3. deild karla. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert