Væri gott fyrir hjartað að kveðja með titli

Skúli Jón Friðgeirsson.
Skúli Jón Friðgeirsson. mbl.is/Hari

Skúli Jón Friðgeirsson, leikmaður KR, viðurkenndi það í samtali við blaðamann að hann ætlaði sér að fylgjast með leik Fylkis og Breiðabliks í kvöld. KR hefur 10 stiga forskot á Breiðablik í 2. sæti deildarinnar og fari svo að Blikar tapi í kvöld verður KR Íslandsmeistari.

Um 2:0-sigurinn gegn ÍA í kvöld sagði Skúli:

„Þeir lágu bara til baka og leyfðu okkur að stjórna ferðinni. Ég hefði viljað fá fleiri mörk í fyrri hálfleik en það var samt erfitt að brjóta þá niður. Það var fínt að fá eitt mark allavega. Svo var þetta 50/50 í seinni hálfleik. Það var rosa gott að fá markið frá Kidda.

Það sást á spilamennsku KR í seinni hálfleik að liðið ætlaði sér ekki að missa sigurinn frá sér – engir sénsir voru teknir.

„Menn spila passífara en annars var gert í byrjun móts. Við vitum það að hver punktur telur mikið fyrir okkur. Í seinni hálfleik spiluðum við passífara en við hefðum annars gert en spiluðum samt fínt og vorum ennþá að skapa ágætis færi og hleyptum þeim ekkert allt of nálægt markinu okkar,“ sagði Skúli en minntist þó á það þegar Finnur Tómas bjargaði fyrir KR á marklínu.

„Ef hann er sýndur. Ég fylgist allavega með hvort sem ég horfi á hann eða fæ upplýsingar í símann,“ sagði Skúli Jón í samtali við mbl.is í kvöld. 

Skúli var ekki viss um það hvort KR-ingar væru búnir að skipuleggja fögnuð í kvöld og vissi ekki hvort búið væri að panta borð á Rauða ljóninu.

„Ég þekki það ekki,“ sagði Skúli Jón og brosti.

„Ef það gerist eitthvað  í kvöld þá bara gerist það og verður óvænt og skmmtilegt. En annars horfum við bara á næsta leik og þá getum við tryggt okkur þetta sjálfir,“ sagði Skúli Jón.

Sjálfur ætlar hann sér að hætta í boltanum eftir tímabilið.

„Síðan ég tók þessa ákvörðun fyrir um ári var það stefnan að að klára þetta á titli. Við erum á fínni leið og það verður rosalega gott fyrir hjartað ef ég get hætt þessu með titli,“ sagði Skúli Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert