Vonumst til að endastöðin verði á Ítalíu

Emil Hallfreðsson á Laugardalsvellinum í morgun.
Emil Hallfreðsson á Laugardalsvellinum í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Emil Hallfreðsson er annar tveggja leikmanna í íslenska landsliðshópnum í knattspyrnu sem eru án félags. Landsliðið kom saman á Laugardalsvellinum í morgun og hóf þar með undirbúning sinn fyrir leikinn gegn Moldóvu í undankeppni EM sem fram fer á Laugardalsvellinum á laugardaginn og á þriðjudaginn sækja Íslendingar lið Albana heim.

Samn­ing­ur Em­ils við ítalska liðið Udinese rann út eft­ir síðustu leiktíð en hann hóf tíma­bilið hjá Fros­in­o­ne. Eft­ir að Emil meidd­ist rifti hann samn­ingi sín­um við fé­lagið og samdi að lok­um aft­ur við Udinese, sem hann lék með frá 2016 til 2018. 

„Það er eitthvað að gerast í mínum málum en það er ekki komið svo langt að ég sé búinn að skrifa undir samning. Ég ætla að taka þetta verkefni með landsliðinu og einbeita mér að því og leggja mín persónulegu mál til hliðar á meðan,“ sagði Emil í samtali við mbl.is fyrir landsliðsæfinguna í morgun en hann hefur meðal annars verið orðaður við ítalska B-deildarliðið Ascoli.

„Eins og staðan er í dag er Ítalía efst á blaði og svo sjáum við hvort það verður að veruleika að ég spili þar áfram. Okkur fjölskyldunni hefur liðið ákaflega vel á Ítalíu og þegar maður er kominn á þennan tíma ferilsins og börnin á þennan aldur skiptir fjölskyldan rosalega miklu máli en ekki endilega hvaða deild ég kem til með að spila í. Við fjölskyldan vonumst til að endastöðin verði á Ítalíu,“ sagði Emil, sem hefur leikið á Ítal­íu sam­fleytt frá 2007, fyr­ir utan eitt tíma­bil að láni hjá Barnsley á Englandi. 

Emil Hallfreðsson í leiknum gegn Tyrkjum í júní.
Emil Hallfreðsson í leiknum gegn Tyrkjum í júní. mbl.is/Hari

Í betra standi nú en í júní

Emil segist vera vel stemmdur fyrir komandi landsleiki og segist vera í góðu líkamlegu formi þótt hann sé án félags.

„Ég er búinn að æfa rosalega vel í sumar. Ég hef bæði æft sjálfur og með FH og ég tel að ég sé í betra standi núna en í júní þegar við mættum Albaníu og Tyrklandi. Þá var ég nýskriðinn upp úr meiðslum en spilaði samt 90 mínútur í leiknum á móti Tyrkjunum. Ég er vel tilbúinn í báða leikina sem fram undan eru en svo er það bara undir þjálfaranum komið að velja liðið. Ég er fullur tilhlökkunar fyrir þessum leikjum,“ sagði Emil, sem hefur spilað 68 leiki fyrir Íslands hönd og skorað eitt mark.

Eigum við ekki að gera kröfu á ykkur að þið vinnið Moldóva á heimavelli?

„Jú, við eigum að taka þrjú stig í þeim leik. Annað yrði hálfgert klúður myndi ég segja. Við erum staðráðnir í að gefa allt í leikinn á laugardaginn og koma okkur í enn betri stöðu fyrir leikinn á móti Albaníu. Þetta eru tveir rosalega mikilvægir leikir og við gerum okkur vel grein fyrir því hvað það myndi koma okkur í góða stöðu að ná sex stigum úr þeim. Ég veit ekki annað en við séum allir í góðu standi og tilbúnir að selja okkur dýrt. Það vilja allir fara aftur á EM. Menn muna þá tilfinningu sem var í Frakklandi og við ætlum okkur að komast á EM. Þá þurfum við að taka sex stig úr þessum tveimur leikjum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert