Eiður Smári: Hamrén er búinn að fá allt of mikla gagnrýni

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það vilja allir sex stig út úr þessum leikjum og vonandi tekst liðinu að ná þeim,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen, markahæsti leikmaður íslenska landsins í knattspyrnu frá upphafi, þegar mbl.is fékk hann til að spá í spilin fyrir fyrir leikina gegn Moldóvu og Albaníu í undankeppni Evrópumótsins.

„Þetta er búinn að vera mikill rússibani hjá A-landsliðinu síðan Erik Hamrén tók við því. Ef við horfum á riðlakeppnina þá er einn tapleikur sem kom á útivelli gegn heimsmeisturum Frakka. Ef einhver hefði sagt það áður en riðlakeppnin hófst að við værum með þrjá sigra eftir fjóra leiki þá hefðu allir tekið því. Þessi gagnrýni hefur verið núllstillt eftir síðustu tvo leiki.

Hamrén er búinn að fá allt of mikla gagnrýni. Hann var búinn að vera í starfi í eina til tvær vikur þegar hann fór í fyrsta leikinn. Á þeim tíma var mikið um meiðsli og þó svo ekki sé hægt að skýla sér á bak við það þá fannst mér allt of mikið einblínt á gagnrýni á hann. Þegar við vinnum leikina er allt í lagi að gefa honum hrósið því hann á það skilið. Hann tók þessa gagnrýni á brjóstið og með úrslitunum í júní sýndi hann úr hverju hann er gerður.

Leikirnir á móti Moldóvu og Albaníu eru jafn mikilvægir leikir og voru í júní þegar við unnum Albaníu og Tyrkland. Þetta eru kannski tveir leikir þar sem við getum sett pressu á okkur að vinna. Það er ekki hægt að ætlast til þess að við vinnum Tyrki því Tyrkland er það stór fótboltaþjóð. Þessar þjóðir sem við erum að fara að mæta eru það ekki og við getum sagt að við ætlumst til þess að liðið vinni báða leikina og vonandi tekst það,“ sagði Eiður Smári, sem verður á hliðarlínunni á Víkingsvelli í dag þegar U21 árs landsliðið mætir Lúxemborg í undankeppni EM en Eiður er aðstoðarþjálfari U21 árs landsliðsins.

Erik Hamrén tók við þjálfun íslenska landsliðsins af Heimi Hallgrímsson eftir HM í fyrra. Fyrsta verkefni Hamréns með íslenska liðinu voru leikir á móti Belgum og Svisslendingum í Þjóðadeild UEFA þar sem allir fjórir leikirnir töpuðust. Hamrén hefur stýrt íslenska liðinu í tólf leikjum, fjórum í Þjóðadeildinni, fjórum í undankeppni EM og í fjórum vináttuleikjum. Ísland hefur unnið þrjá af þessum leikjum, tapað fimm og gert fjögur jafntefli.

Úrslitin í þessum leikjum hafa verið þessi:

Sviss - Ísland 6:0 (Þjóðadeildin)

Ísland - Belgía 0:3 (Þjóðadeildin)

Frakkland - Ísland 2:2 (Vináttuleikur)

Ísland - Sviss 1:2 (Þjóðadeildin)

Belgía - Ísland 2:0 (Þjóðadeildin)

Katar - Ísland 2:2 (Vináttuleikur)

Svíþjóð - Ísland 2:2 (Vináttuleikur)

Eistland - Ísland 0:0 (Vináttuleikur)

Andorra - Ísland 0:2 (Undankeppni EM)

Frakkland - Ísland 4:0 (Undankeppni EM)

Ísland - Albanía 1:0 (Undankeppni EM)

Ísland - Tyrkland 2:1 (Undankeppni EM)

mbl.is