Erum að verða svolítið gamlir

Birkir í leiknum í dag.
Birkir í leiknum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Birkir Bjarnason skoraði annað mark Íslands í sannfærandi 3:0-sigri á Moldóvu á Laugardalsvelli í undankeppni EM 2020 í knattspyrnu. Birkir var kátur er hann spjallaði við blaðamenn eftir leik. 

„Það er frábært að fá þrjú stig. Við byrjuðum frekar illa en náðum svo að róa okkur niður og halda boltanum betur. Það var frábært að fá markið í seinni hálfleik, það gaf okkur meiri ró og þetta var mjög fagmannlega spilað í seinni hálfleik,“ sagði Birkir sem var ánægður með að íslenska liðið skyldi spila 4-4-2 í leiknum með Jón Daða Böðvarsson og Kolbein Sigþórsson saman frammi. Hann hrósaði svo Kolbeini eftir leik. 

„Það var hrikalega vont fyrir þá að við vorum með tvo sterka framherja. Það hentaði okkur vel í dag og hefur gert í mörg ár. Það er gott að koma í það kerfi aftur. Það er frábært fyrir hann. Hann er búinn að vera gríðarlega óheppinn í mörg ár og það er frábært fyrir hann og okkur að hann skuli vera kominn til baka. Hann er gríðarlega sterkur fyrir okkur.“

Mark Birkis er með þeim léttari sem hann hefur skorað, en hann potaði boltanum í netið af nánast engu færi. „Það var nú ekki erfitt að pota honum inn, en það var gott að fá markið og stigin þrjú.“

Níu af ellefu leikmönnum íslenska liðsins voru í byrjunarliðinu í öllum leikjum á EM í Frakklandi árið 2016. 

„Við erum að verða svolítið gamlir eins og sumir segja, en við viljum meira. Við sýnum það í hverjum leik og vonandi getum við gert það áfram. Þetta var erfitt á móti Frökkum úti, en annars erum við búnir að spila gríðarlega vel og ná í stig,“ sagði Birkir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert