Draumurinn um EM lifir góðu lífi

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu á ennþá góða möguleika á því …
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu á ennþá góða möguleika á því að tryggja sér sæti á lokamóti EM næsta sumar, þrátt fyrir tap í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Möguleikar íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu um að komast á lokamót EM 2020 lifa ennþá góðu lífi þrátt fyrir svekkjandi 4:2-tap gegn Albaníu á Elbasan Arena í Elbasan í Albaníu í kvöld í H-riðli undankeppninnar. Þetta var annar tapleikur íslenska liðsins í undankeppninni en Ísland er nú í þriðja sæti H-riðils með 12 stig, þremur stigum minna en Tyrkland og Frakkland, sem eru í efstu tveimur sætunum með 15 stig hvort.

Ísland á eftir að mæta bæði Frökkum á Laugardalsvelli og Tyrklandi á Türk Telekom-vellinum í Istanbúl en fari svo að lið verði jöfn að stigum eru það innbyrðis viðureignir sem gilda og markatala í innbyrðis leikjum. Ísland vann 2:1-sigur gegn Tyrklandi á Laugardalsvelli í júní og fari svo að Ísland nái í hagstæð úrslit í Tyrklandi gæti íslenska liðið því vel farið áfram á kostnað Tyrkja.

Ef Íslenska liðið kemst ekki áfram í gegnum undankeppnina á liðið ennþá möguleika á sæti á lokamóti EM í gegnum umspil tengt Þjóðadeildinni. Það umspil verður í mars á næsta ári og eins og sakir standa myndi íslenska liðið fara í umspil með Hollandi, Sviss og Ísrael um eitt laust sæti á EM.

Bæði Holland og Sviss eiga góða möguleika á því að tryggja sér beint sæti í lokakeppni EM í gegnum undankeppnina og því gætu hlutirnir breyst fljótt. Fari svo að Holland og Sviss tryggi sæti sín þá myndu Búlgaría og Norður-Írland koma inn í umspilið í þeirra stað, eins og sakir standa, en hafa ber í huga að ennþá er nóg eftir af undankeppninni og það getur ýmislegt gerst ennþá.

Leikirnir sem eru eftir í riðlinum:

11. október
Ísland - Frakkland
Tyrkland - Albanía
Andorra - Moldóva

14. október
Frakkland - Tyrkland
Ísland - Andorra
Moldóva - Albanía

14. nóvember
Tyrkland - Ísland
Albanía - Andorra
Frakkland - Moldóva

17. nóvember
Albanía - Frakkland
Moldóva - Ísland
Tyrkland - Andorra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert