Ekki búið ennþá

Kolbeinn Sigþórsson skoraði annað mark íslenska liðsins eftir að hafa …
Kolbeinn Sigþórsson skoraði annað mark íslenska liðsins eftir að hafa komið inn á sem varamaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við vorum ekkert sérstakir í fyrri hálfleik,“ sagði Kolbeinn Sigþórsson, framherji íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Ríkissjónvarpið eftir 4:2-tap íslenska liðsins gegn Albaníu í undankeppni EM 2020 á Elbasan Arena í Elbasan í Albaníu í kvöld.

„Það var langt á milli manna og þeir fengu að spila boltanum á milli sín allt of auðveldlega. Við vorum ekki að verjast vel heldur og vorum ósamstiga. Þeir keyrðu á okkur af miklum krafti en okkur tekst að jafna metin tvívegis í seinni hálfleik og koma okkur í góða stöðu. Við fáum á okkur fjögur mörk og þegar það gerist er lítið hægt að gera.“

Kolbeinn jafnaði metin fyrir íslenska liðið í 2:2 stuttu eftir að hann kom inn á sem varamaður en það dugði skamt.

„Ég held að þetta hafi verið fyrsta snertingin mín og það var ljúft á meðan það lifði en það skiptir ekki máli þegar þú tapar 4:2. Við komum hingað til þess að ná í þrjú stig en núna þurfum við að vinna Tyrkina á útivelli. Það eru ennþá fjórir leikir eftir og þetta er ekki búið  ennþá,“ sagði Kolbeinn í samtali við RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert