Slæmur skellur í Albaníu

Albanar fögnuðu 4:2-sigri gegn Íslendingum í H-riðli undankeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu á Elbasan Arena í albönsku borginni Elbasan í kvöld.

Ísland er áfram í þriðja sæti í riðlinum en er nú þremur stigum á eftir Frökkum og Tyrkjum eftir sex umferðir. Frakkland vann 3:0-sigur á Andorra í kvöld og Tyrkir gerðu góða ferð til Moldóvu og fögnuðu 4:0-sigri.

Albanar voru kraftmeiri frá byrjun og voru með undirtökin mestallan fyrri hálfleikinn ef undan er skilinn góður kafli áður en þeir skoruðu. Rei Manaj komst í færi á 13. mínútu uppúr aukaspyrnu en skaut framhjá íslenska markinu. Það var þrátt fyrir pressuna eina virkilega hættan við mark Íslands á fyrsta hálftímanum.

Gylfi Þór Sigurðsson fékk tvö færi með stuttu millibili á 26. mínútu. Fyrst skaut hann rétt yfir markvinkilinn af 20 m færi og strax í kjölfarið fékk hann góða sendingu frá Jóni Daða Böðvarssyni og var í upplögðu færi rétt utan markteigs en renndi boltanum framhjá stönginni fjær.

Keidi Bare komst í gott færi rétt innan vítateigs Íslands á 31. mínútu en hitti boltann afar illa og skaut langt framhjá. Það var þó bara fyrirboði því á 32. mínútu skoraði miðvörðurinn Kastriot Dermaku með skalla eftir hornspyrnu og Albanar voru komnir með forystu, 1:0. Manaj var ógnandi á 35. mínútu þegar hann átti góðan sprett og fast skot frá vítateig en rétt framhjá íslenska markinu.

Gylfi átti síðustu marktilraun fyrri hálfleiks þegar hann fékk boltann frá Jóni Daða rétt utan vítateigs, sneri af sér varnarmenn og skaut með vinstri fæti en rétt framhjá markinu hægra megin.

Staðan var því 1:0 í hálfleik, verðskulduð forysta heimamanna sem voru mun kraftmeiri nánast allan fyrri hálfleikinn.

En Ísland var ekki lengi að snúa leiknum við. Á annarri mínútu síðari hálfleiks sendi Rúnar Sigurjónsson boltann inná markteiginn frá hægri, fékk hann aftur og renndi þá út á Gylfa sem renndi boltanum yfirvegað í hægra hornið, 1:1.

Íslenska liðið virtist vera að ná undirtökunum en Albanar náðu aftur vopnum sínum. Á 52. mínútu galopnaðist íslenska vörnin þegar Elseid Hysaj fékk hælsendingu inní miðjan vítateiginn og lyfti boltanum snyrtilega yfir Hannes og í markið, 2:1.

Tveimur mínútum síðar var aftur hætta við íslenska markið en Kári Árnason náði að komast fyrir skot á síðustu stundu.

Erik Hamrén beið þá ekki boðanna og setti aukinn þunga í sóknarleikinn með því að setja Kolbein Sigþórsson inná fyrir Emil Hallfreðsson á 56. mínútu og fara í 4-4-2.

Það hreif! Kolbeinn jafnaði með sinni fyrstu snertingu á 58. mínútu, 2:2. Eftir aukaspyrnu Gylfa skallaði Rúnar Már boltann inn í teiginn, hann fór af Kára til Kolbeins sem hamraði hann í netið rétt utan markteigs!

Þar með var kominn allt annar taktur í leik íslenska liðsins og á 61. mínútu átti Jón Daði hörkuskalla rétt framhjá markinu eftir fyrirgjöf Ara Freys Skúlasonar frá vinstri. Og í stórsókn íslenska liðsins þar sem Rúnar var í aðalhlutverki dansaði boltinn fram og til baka í markteignum þar til hann hrökk af Rúnari rétt yfir slána.

Á 70. mínútu komst Kolbeinn að endamörkum og sendi fyrir markið þar sem Jón Daði átti viðstöðulaust skot en yfir albanska markið. Leikurinn var galopinn á þessum tímapunkti en Albanar áttu meira eftir á tanknum á lokakafla leiksins. Odise Roshi kom þeim í 3:2 á 79. mínútu þar sem íslenska vörnin var sundurspiluð og þremur mínútum síðar innsiglaði Sokol Cikalleshi sigur Albana þegar hann skoraði með föstu skoti úr teignum en boltinn hafði viðkomu í Kára.

Kári Árnason tognaði aftan í læri og Íslendingar léku manni færri síðustu tíu mínúturnar þar sem búið var að skipta öllum þremur varamönnunum inná.

Albanía 4:2 Ísland opna loka
90. mín. Og enn skora Tyrkirnir. Þeir eru komnir í 4:0 gegn Moldóvum.
mbl.is