Vorum bara ekki nógu góðir

Ragnar Sigurðsson.
Ragnar Sigurðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum bara ekki nógu góðir í dag og áttum ekki skilið að vinna þennan leik,“ sagði landsliðsmaðurinn Ragnar Sigurðsson við mbl.is eftir tapið gegn Albönum í undankeppni EM í kvöld.

„Okkur leið vel fyrir leikinn og fannst við vera tilbúnir en svona gerist þetta stundum. Okkur fannst við alveg vera með þá í stöðunni 2:2. Mér fannst Albanarnir orðnir mjög þreyttir. Við vildum vinna leikinn en í staðinn fengum við á okkur tvö mörk. Það er erfitt að meta hvað fór úrskeiðis. Ég á eftir að sjá þetta en við höldum bara áfram og reynum að vinna næsta leik,“ sagði Ragnar.

Næsti leikur íslenska landsliðsins verður gegn heimsmeisturum Frakka á Laugardalsvellinum 11. október og þremur dögum síðar taka Íslendingar á móti Andorra. Tveir síðustu leikirnir verða á útivelli, gegn Tyrkjum 14. nóvember og Moldóvum 17. nóvember.

mbl.is