Ætla að leyfa mér að halda í vonina

Kári Árnason.
Kári Árnason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held í vonina um að geta spilað bikarúrslitaleikinn en það er ómögulegt að segja til um það á þessari stundu hvort ég verð klár,“ sagði landsliðsmaðurinn Kári Árnason í samtali við mbl.is en hann var þá nýkominn úr myndatöku.

Kári varð fyrir meiðslum aftan í læri undir lok leiksins gegn Albönum í gærkvöld og varð að hætta leik. Íslendingar léku því manni færri síðustu mínútur leiksins.

„Ég var bara rétt að koma úr myndatökunni og ég bíð eftir niðurstöðu úr henni og það ætti að skýrast endanlega á morgun hver staðan er. Ég hef fengið svona tilfinningu áður þar sem ég hélt að ég væri tognaður en svo var það bara einhver taugakrampi sem ég jafnaði mig af á örfáum dögum með hjálp sjúkraþjálfara. Ég ætla að leyfa mér að halda í vonina um að eitthvað slíkt sé í gangi núna,“ sagði Kári en Víkingur mætir FH í úrslitaleik Mjólkurbikarkeppninnar á Laugardalsvellinum á laugardaginn.

„Þessi völlur í Albaníu var ekki sá léttasti. Völlurinn var bara eins og svampur og það var mjög skrýtið að vera á honum. Það var ekki gott að spila seinni leik á þessu grasi fyrir menn á mínum aldri. Það var ekkert sniðugt að reyna að halda áfram að spila. Það hefði bara getað gert illt verra og ég kannski verið úr leik í einhverja tvo mánuði,“ sagði Kári.

mbl.is