Birkir kom Hirti til varnar

Birkir Már Sævarsson hefur ekki verið í landsliðinu í síðustu …
Birkir Már Sævarsson hefur ekki verið í landsliðinu í síðustu leikjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birkir Már Sævarsson missti sætið sitt í hægribakvarðarstöðu íslenska landsliðsins í fótbolta til Hjartar Hermannssonar. Hjörtur hefur spilað síðustu fjóra leiki landsliðsins í stöðunni á meðan Birkir hefur ekki verið í hópnum. 

Hjörtur átti erfitt uppdráttar gegn Albaníu í gærkvöldi og var nokkuð gagnrýndur fyrir frammistöðu sína og voru margir notendur á Twitter á því að Birkir Már ætti að koma aftur í liðið í stað Hjartar. 

Birkir Már var ekki á þeim buxunum að gagnrýna Hjört, en Stefanía Sigurðardóttir, eiginkona Birkis, sagði frá því á Twitter eftir leik.

Ég veit um einn sem ekki talaði niðrandi um leik Hjartar í kvöld. Sá réttlætti og útskýrði ákvarðanir og staðsetningar, sem landsmenn virtust afar ósáttir við hjá bakverðinum, aftur og aftur fyrir viðmælendum sínum yfir leiknum og eftir hann. Stolt af hugarfari Birkis,“ skrifaði Stefanía í twitterfærslu. 

mbl.is