Gætum þurft fleiri stig

Jón Ólafur Daníelsson var að vonum sáttur með sigur sinna …
Jón Ólafur Daníelsson var að vonum sáttur með sigur sinna kvenna gegn HK/Víkingi í Vestmannaeyjum í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Jóni Ólafi Daníelssyni, þjálfara ÍBV, var létt eftir sigur liðsins á HK/Víkingi í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í Vestmannaeyjum í dag, en ÍBV skoraði þrjú mörk gegn einu marki gestanna. ÍBV fór þar með langleiðina með að tryggja veru sína í Pepsi-Max deildinni fyrir árið 2020. Jón vill þó alls ekki meina að þetta sé öruggt en líkurnar eru með Eyjakonum.

„Þetta er vissulega mikill léttir, en fjarri því að vera búið. Ég held að þetta muni ekki nægja, ég held að við þurfum fleiri stig.“

ÍBV virkaði mun betra liðið í kvöld á Hásteinsvelli en hvað gerði það að verkum?

„Ég held að við séum loksins að finna visst jafnvægi eftir að Cloé fór. Mckenzie er komin til baka úr sínum meiðslum, það bindur gríðarlega saman vörnina og fyrir vikið getum við sett Caroline til hliðar og látið hana spila á vængnum. Þetta kemur miklu meira jafnvægi í liðið okkar og það er komin meiri liðsheild á þetta.“

Leikmenn ÍBV virtust ofar á vellinum í dag en oft áður, telur Jón að það henti ÍBV betur að leika ofar á vellinum?

„Okkar lið er þannig samansett að við þurfum of oft að taka tillit til þess við hvaða lið við erum að spila. Við höfum þurft að breyta um leikskipulag á milli leikja en nú virðist vera komið visst jafnvægi og komnar sjálfstæðari ákvarðanir inni á vellinum varðandi það hvenær við pressum og hvenær við föllum aðeins til baka.“

Fremstu þrír leikmenn ÍBV áttu mjög góðan leik í dag, Emma Kelly skoraði frábært mark og síðan lagði Clara Sigurðardóttir upp tvö mörk fyrir Brennu Lovera.

„Þær voru hrikalega góðar, það voru allar í okkar liði góðar í dag, ég er mjög ánægður með þessa frammistöðu.“

mbl.is