Mjög mikill léttir

Clara Sigurðardóttir átti mjög góðan leik fyrir ÍBV í dag …
Clara Sigurðardóttir átti mjög góðan leik fyrir ÍBV í dag gegn HK/Víkingi. mbl.is/Arnþór Birkisson

Clara Sigurðardóttir, ungur leikmaður ÍBV, átti stórleik þegar liðið sigraði HK/Víking 3:1 í úrvalsdeild kvenna í knatspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í Vestmannaeyjum í kvöld. Clara lagði upp tvö mörk hjá ÍBV og var stórhættuleg á hægri kantinum mestallan leikinn.

„Mér fannst við miklu betri, við sýndum gæðin okkar vel í dag og áttum í raun að vera löngu búnar að því. Við vorum ákveðnar í að vinna þennan leik og sýndum það í dag að við erum með betra lið en HK/Víkingur.“

ÍBV hefur gengið mjög illa upp á síðkastið en Clara vill meina að liðið hafi spilað betur saman í þessum leik en oft áður.

„Við höfum náð að halda boltanum niðri og spila. Um leið og við náðum að halda boltanum niðri og spila hann á milli áttum við allan leikinn.“

Staðan var jöfn í hálfleik en það var hættulegt fyrir ÍBV því ef gestirnir hefðu náð að læða inn marki væru Eyjakonur í bullandi veseni.

„Við ákváðum að fara ekki fram úr okkur, halda okkar marki hreinu og þá vissum við að það lægi í loftinu mark frá okkur, við áttum allan tímann að vinna þetta.“

Clara lagði upp tvö mörk í síðari hálfleik og átti mjög góðan leik.

„Ég er mjög ánægð, þótt ég hefði líka viljað skora, en það kemur bara næst.“

ÍBV er nú með 15 stig, fimm stigum fyrir ofan Keflavík, sem á enn tölfræðilega möguleika á að fella Eyjakonur. Clara heldur þó að þetta sé komið hjá ÍBV.

„Þetta er mjög mikill léttir, við erum mjög sáttar, ég held að þetta sé komið hjá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert