Þarf ekki að gera annað en skora

Berglind Björg skorar fyrra markið sitt í kvöld.
Berglind Björg skorar fyrra markið sitt í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Berglind Björg Þorvalsdóttir var í stuði og skoraði tvö mörk í glæsilegum 3:2-sigri Breiðabliks á Sparta Prag frá Tékklandi í fyrri leik liðanna í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld. 

Sparta Prag var með 2:1-forystu þegar skammt var eftir en Berglind jafnaði í 2:2 tólf mínútum fyrir leikslok og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði sigurmarkið aðeins tveimur mínútum síðar. 

„Það er frábært að koma til baka og ég fann á mér að við myndum gera það. Við vorum mjög líklegar framan af og ég hafði fulla trú á að við myndum snúa þessu við. Við þurftum bara að halda áfram því við vorum að fá færi og ná flottum köflum. Við þurftum bara að klára færin."

Berglind segir tékknesku meistarana vera með gott lið og aðeins betri en liðin í íslensku deildinni. 

„Mér fannst þær mjög góðar. Þær voru góðar á boltanum, líkamlega sterkar og stórar. Þær eru ekki ósvipuð og liðin á Íslandi nema líkamlega sterkari og aðeins betur spilandi. Það er alltaf gaman að spila á móti nýjum liðum,“ sagði Berglind, sem segir að Breiðablik sé með betra lið en Sparta Prag, nái liðið að spila sinn leik. 

„Alveg klárlega. Þegar við fórum að gera það sem við lögðum upp með og fórum að sækja upp bakverðina þeirra, þar sem var mikið pláss, virkaði þetta mjög vel. Við þurfum að fara út og byggja á þessum leik og bara klára hann (seinni leikinn á útivelli), þetta er ekki flókið!“ sagði Berglind og hló. 

Berglind skoraði tvö skallamörk í kvöld, en það gerist ekki á hverjum degi hjá framherjanum. 

„Ég náði að hlaupa á nær í fyrra markinu og í seinna markinu var þetta geggjuð fyrirgjöf frá Ástu og stangaði hann í netið. Það er ekki oft sem ég skora með skalla, en það var mjög gaman í dag. Við erum með geggjaða bakverði; með þær þarf maður ekki að gera annað en skora," sagði Berglind Björg. 

mbl.is